Þann 29. desember sl. var skrifað undir nýjan styrktarsamning Íslandsbanka við knattspyrnudeild Umf. Selfoss. Samkvæmt samningnum, sem er sá stærsti sem deildin hefur gert til þessa, verður Íslandsbanki aðalstyrktaraðili deildarinnar næstu tvö árin. Þess má geta að Íslandsbanki hefur verið einn af aðalstyrktaraðilum knattspyrnudeildar Umf. Selfoss undanfarin 25 ár.
Nýi samningurinn er umfangsmeiri en áður og kallar á aukið framlag beggja aðila. Hann nær til allra flokka bæði karla og kvenna. Mikill kraftur hefur verið í starfi knattspyrnudeildar undanfarin ár sem m.a. má sjá í því að í ár verður Selfoss með lið í efstu deild karla og kvenna. Þá er stutt síðan félagið eignaðist Íslandsmeistara í 3. flokki kvenna. Stuðningur Íslandsbanka við starf deildarinnar er ákaflega mikilvægur og hefur mikil áhrif á samfélagið allt.
-ög
Mynd: Jón Rúnar Bjarnason, útibússtjóri Íslandsbanka, og Óskar Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildar, við undirritun samningsins. Fyrir aftan eru Jón Daði Böðvarsson, Anna María og Katrín Ýr Friðgeirsdætur og Stefán Ragnar Guðlaugsson. Ljósmynd:sunnlenska.is/gk