Knattspyrna - Oliver Helgi Gíslason
Oliver Helgi Gíslason er genginn til liðs við Selfoss. Oliver sem er fæddur árið 1999 kemur til liðsins frá Haukum. Oliver er kantmaður en getur einnig leyst stöðu framherja. Hann gerir tveggja ára samning við Selfoss.
,,Ég er mjög ánægður með það að vera kominn í Selfoss. Liðið er gott og það sama má segja um þjálfarann. Þá virðist stemningin í hópnum vera góð þannig mér líst mjög vel á þetta,” segir Oliver.
Á fyrstu æfingunni eftir að hafa skrifað undir samning við Selfoss varð Oliver fyrir því ævintýralega óhappi að ökklabrotna. Hann gekkst undir aðgerð nokkrum dögum síðar og er nú í endurhæfingu vegna þess.
,,Læknarnir tala um sirka 10 vikur í það að ég geti farið að spila fótbolta aftur. Aðgerðin gekk vel og ég losna úr gifsinu í byrjun maí, en þá fer ég í svokallað göngugifs sem ég verð með í fjórar vikur,” segir Oliver um óhappið.
Við bjóðum Oliver hjartanlega velkomin á Selfoss og óskum honum góðs gengis í endurhæfingunni en knattspyrnudeild Selfoss mun að sjálfsögðu styðja vel við bakið á honum í þeirri vinnu sem framundan er.
---
Oliver Helgi á Selfossvelli
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Arnar Helgi