Selfoss sigraði Unglingamót HSK í frjálsum

Unglingamót HSK var haldið í Frjálsíþróttahöllinni 8. janúar sl. Frjálsíþróttadeild Selfoss sendi öflugt lið til leiks og var frammistaða keppenda mjög góð. Selfoss sigraði stigakeppni félaganna með 155 stig. Lið Dímonar kom næst með 122 stig.

Kristín Rut Arnardóttir stökk inn í úrvalshóp FRÍ með því að bæta sig um 10 cm í hástökki og stökkva 1,55 m. Hún sigraði jafnframt í flokki 16-17 ára.

Dagný Lísa Davíðsdóttir varð fjórfaldur HSK-meistari í flokki 15 ára. Hún sigraði hástökk með 1,50 m, kastaði 3 kg kúlu 9,10 m, hljóp 60 m á 9,02 sek og endaði á því að bæta sig í 60 m grind þegar hún hljóp á 10,54 sek.

Andrea Vigdís Victorsdóttir varð tvöfaldur HSK-meistari í flokki 15 ára meyja. Hún stökk 4,22 m í langstökki og hljóp 800 m á 2:51,85 mín.

Sólveig Helga Guðjónsdóttir varð tvöfaldur HSK- meistari í flokki 16-17 ára meyja. Hún hljóp 60 m hlaup á 8,54 sek og 800 m á 2:53,36 mín.

Anna Pálsdóttir varð tvöfaldur HSK-meistari í flokki 19-22 ára kvenna. Hún stökk 1,35 m í hástökki og kastaði 4 kg kúlu 9 metra.

Hermann Snorri Hoffritz varð HSK-meistari í langstökki þegar hann stökk 5,12 m og bætti sinn besta árangur um 37 cm. Hermann bætti sig einnig í 60 m hlaupi þegar hann hljóp til silfurs á 8,04 sek. Hann átti best 8,09 sek.

Andrea Sól Marteinsdóttir bætti sinn besta árangur um 5 cm í hástökki þegar hún stökk 1,45 m. Allir iðkendur deildarinnar náðu á verðlaunapall.

Hægt er að lesa nánar um úrslit mótsins á www.fri.is.

-sag/ög