Fulltrúar Umf. Selfoss
Héraðsþing HSK var haldið á Laugalandi í Holtum fimmtudaginn 14. mars sl. og er þetta í fyrsta skipti í sögu sambandsins sem þingið fer fram í miðri viku. Þessi breyting þótti takast vel og líklegt má telja að þing sambandsins verði framvegis haldin seinni part dags á virkum degi.
Myndskreytt ársskýrsla kom út á þinginu og má sjá vefútgáfu skýrslunnar á vefsíðu HSK. Engar breytingar urðu á stjórn sambandsins, en allir stjórnar- og varastjórnarmenn gáfu kost á sér áfram.
HSK veitti nokkur sérverðlaun á þinginu, líkt og undanfarin ár. Umf. Þjótandi hlaut unglingabikar HSK, Umf. Hrunamanna fékk foreldrastarfsbikarinn og þá var Marteinn Sigurgeirsson valinn öðlingur ársins. Einnig voru nokkir einstaklingar af sambandssvæði HSK heiðraðir fyrir þeirra störf fyrir hreyfinguna. Þeirra á meðal voru auk Marteinn Sigurgeirsson Selfyssingarnir Gissur Jónsson og Sigríður Anna Guðjónsdóttir.
Guðríður Aadnegard formaður HSK veitti, f.h. stjórnar HSK, eitt gullmerki og tvö silfurmerki. Guðni Guðmundsson, Umf. Ingólfi og Íþf. Garpi, var sæmdur gullmerki HSK og Gissur Jónsson, Umf. Selfoss og Haraldur Gísli Kristjánsson, Íþf. Garpi, voru sæmdir silfurmerki sambandsins.
Valgerður Auðunsdóttir, Umf. Skeiðamanna, var sæmd heiðurskrossi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Það var Hafsteinn Pálsson, stjórnarmaður í ÍSÍ, sem afhenti Valgerði viðurkenninguna. Guðmunda Ólafsdóttir, Umf. Þjótanda, fékk einnig viðurkenningu frá ÍSÍ en hún var sæmd silfurmerki sambandsins.
Guðríður Aadnegard, formaður HSK, var sæmd gullmerki Ungmennafélags Íslands. Örn Guðnason, varaformaður UMFÍ, afhenti fyrir hönd stjórnar UMFÍ. Þrír einstaklingar fengu starfsmerki UMFÍ þau Sigríður Anna Guðjónsdóttir, Umf. Selfoss, Jóhanna Hlöðversdóttir, Íþf. Garpi og Guðmann Óskar Magnússon, Íþf. Dímoni.
Umf. Selfoss var stigahæsta félagið hjá HSK fyrir árið 2018, hlaut 154,5 stig sjónarmun á undan Dímon sem hlaut 153 stig.
Marteinn Sigurgeirsson, Umf. Selfoss var valinn öðlingur ársins fyrir þátttöku sína í félagsstarfi og íþrótttum og ekki síst fyrir að varðveita söguna með kvikmyndagerð sinni.