Selfyssingar með yfirburðasigur á Héraðsmóti HSK

Sigurlið Selfoss á Héraðsmóti HSK
Sigurlið Selfoss á Héraðsmóti HSK

Héraðsmót HSK var haldið á Selfossvelli dagana 12. og 13. ágúst. Selfyssingar mættu með öflugt lið til keppninnar og gjörsigruðu Héraðsmótið með 148 stig. Hekla varð í öðru sæti með 32 stig og Þjótandi í því þriðja með 16 stig. Hjálmar Vilhelm Rúnarsson og Anna Metta Óskarsdóttir voru stigahæstu keppendur mótsins, Hjálmar Vilhelm halaði inn 30 stigum og Anna Metta krækti í 33 stig.
Hjálmar Vilhelm Rúnarsson varð sexfaldur héraðsmeistari. Hann sigraði 100m hlaup á tímanum 12,03 sek og 200m hlaup á tímanum 23,64sek.  Í langstökki sveif hann lengst allra er hann stökk 5,99m, kúlunni varpaði hann til sigurs með 11,90m löngu kasti og kringlunni þeytti hann lengst allra eða 39,04m. Hjálmar Vilhelm var einnig í sigursveitinni í 4x100m boðhlaupi sem kom í mark á tímanum 46,50 sek.  Með honum í sveitinni voru þeir Vésteinn Loftsson, Þorvaldur Gauti Hafsteinsson og Daníel Breki Elvarsson.  Daníel Breki varð auk þess héraðsmeistari í hástökki er hann vippaði sér yfir 1,75m og í spjótkasti er hann kastaði því 53,44m. Hinn 13 ára Magnús Tryggvi Birgisson varð héraðsmeistari í þrístökki með 10.06m löngu stökki.

Hanna Dóra Höskuldsdóttir varð fjórfaldur héraðsmeistari. Hún sigraði í 100m grindahlaupi á tímanum 16,66 sek og hún stökk hæst allra í hástökki er hún vippaði sér yfir 1,61m. Hún þeytti kringlunni lengst allra með 29,51m  löngu kasti og að lokum var hún í sveit Selfoss sem sigraði í 4x100m boðhlaupi á tímanum 54,70 sek.  Með henni í sveitinni voru þær Eydís Arna Birgisdóttir, Dagmar Morthens og Ísold Assa Guðmundsdóttir. Ísold Assa sigraði auk þess í stangarstökki þegar hún  stökk yfir 2,80m. Anna Metta Óskarsdóttir sem er einungis 14 ára gömul varð þrefaldur héraðsmeistari. Hún sigraði 100m hlaup á tímanum 13,71 sek, 800m hlaup á tímanum 2:50,37 mín og að lokum stökk hún lengst allra í þrístökki þegar hún stökk 10,70m.  Bryndís Embla Einarsdóttir varð tvöfaldur héraðsmeistari, hún sigraði spjótkast með 36,80m löngu kasti og sleggjukast með 31,43m. Hugrún Birna Hjaltadóttir varð héraðsmeistari í 400m hlaupi á tímanum 62,36 sek og systir hennar Dagbjört Eva Hjaltadóttir sem er einungis 13 ára gömul varð héraðsmeistari í 1500m hlaupi á tímanum 6:40,55 mín.  Að lokum sigraði hin þaulreynda Ágústa Tryggavadóttir kúluvarp er hún varpaði kúlunni 9.72m. 

 Hjálmar Vilhelm Rúnarsson og Anna Metta Óskarsdóttir voru stigahæstu einstaklingar Héraðsmótsins