Sex gullverðlaun í kúluvarpi til HSK á Stórmóti ÍR

Aðildarfélög HSK áttu 43 keppendur á Stórmóti ÍR sem haldið var Laugardalshöllinni um liðna helgi. Keppendur HSK stóð sig vel að vanda. Uppskeran var 15 gull, 12 silfur og 10 brons, eitt HSK-met og fullt af persónulegum metum. Keppt var í öllum aldursflokkum. Krakkar 10 ára og yngri kepptu í svokölluðum Krakkafrjálsum, en það er þrautabraut sem samanstendur af 6-10 þrautum þar sem líkt er eftir hreyfingum úr hefðbundnum frjálsíþróttagreinum. Keppt var í 10-12 krakka hópum og vann hópurinn saman í að safna stigum, þar sem allir fengu svo verðlaunapening í lokin. Selfoss átti þar tíu keppendur og Laugdælir einn.

11 ára flokkur: 
Þar varð Helga Margrét Óskarsdóttir frá Selfossi önnur í langstökki á góðri bætingu með 3,69 m, og í 60 m hlaupi á 9,58 sek.

12ára flokkur: 
Stefán Narfi Bjarnason Baldri keppti í nokkrum greinum og varð ofarlega í þeim öllum. Bestur varð árangur hans í kúluvarpinu, en hann gerði sér lítið fyrir og sigraði með 7,39 m kasti. 
Guðbjörg María Onnoy Laugdælum fylgdi svo eftir góðum árangri hjá piltunum þegar hún varð önnur í kúlunni er hún kastaði 8,34 m.

13ára flokkur:
Styrmir Dan Steinunnarson Þór Þorlákshöfn var eini HSK-keppandinn í þessum flokki, en hann átti frábært mót og rakaði inn sex verðlaunum. Hann sigraði kúluvarpið er hann kastaði 12,25 m sem er bæting um tæpan meter, 60 m grindahlaupið á sekúndu bætingu, tíminn 10,14 sek og hástökki er hann vippaði sér yfir 1,60 m. Hann tók svo silfur í 60 m hlaupinu á 8,64 sek, langstökki með 4,82 m og 200 m hlaupi á 28,50 sek sem er stórbæting.

Þrettán ára stúlkurnar hjá okkur voru sprækar. Halla María Magnúsdóttir og Harpa Svansdóttir Selfossi voru öflugar að vanda og unnu ellefu verðlaun samtals. Halla sigraði fjórar greinar, 60 m hlaup á 8,51 sek, sem er bæting um 1,2 sek, 60 m grindahlaup á 10,76 sek, en þar varð Harpa önnur á 10,82 sek, 200 m hlaup á 28,80 sek þar sem Harpa varð þriðja á 29,29 sek, og svo kúluvarpið með 11,74 sek. þar sem Harpa átti annað lengsta kastið. Halla varð svo þriðja í langstökki á bætingu er hún sveif 4,52 m. Það var hinsvegar Harpa sem kom sá og sigraði þar með glæsilegu 4,73 m stökki. Harpa sigraði einnig hástökkið með því að vippa sér yfir 1,40 m. Að auki fékk Harpa brons í 600 m hlaupinu á tímanum 1:51,00 mín.

Fjórtán ára flokkur:
Teitur Örn Einarsson Selfossi landaði fjórða gullinu í kúluvarpi hjá HSK með því að varpa kúlunni 10,64 m, einum cm lengra en félagi hans Sveinbjörn Jóhannesson Laugdælum sem varð annar. Teitur kom svo annar í mark í 800 m hlaupi á rúmlega sekúndu bætingu á tímanum 2:29,75 mín.
Dagný Lísa Davíðsdóttir Selfoss stóbætti sig í 60 m grindahlaupi. Hún kom þriðja í mark á tímanum 10,24 sek.

15 ára flokkurinn:
Sigþór Helgason Selfossi stóð sig frábærlega á mótinu. Hann setti HSK-met í 60 m grindahlaupi í flokki 15 ára (84 cm hæð) er hann hljóp á 9,08 sek og vann þriðju verðlaun. Hann sigraði í langstökki með 5,68 m sem er bæting um 41 cm. Hann sigraði einnig í kúluvarpi er hann bætti sinn besta árangur um 39 cm. og kastaði 13,37 m. Að lokum sigraði hann í þrístökki er hann stökk 11,52 m. Sigþór fékk að auki silfurverðlaun í hástökki fyrir að stökkva 1,60 m og bronsverðlaun í 60 m hlaupi er hann hljóp vegalengdina á 7,91 sek. 
Elinborg Anna Jóhannsdóttir Laugdælum keppti í nokkrum greinum og komst á pall í þrístökki með því að fara í fyrsta sinn yfir 10 metrana er hún stökk 10,20 m og brons var staðreynd.

16-17ára flokkur:
Þetta hefur ávallt verið sterkur flokkur í HSK. Eva Lind Elíasdóttir Þór Þorlákshöfn mætti sterk til leiks í kúluvarpinu ásamt Thelmu Björk Einarsdóttur úr Selfoss. Eva kastaði 13,08 m og sigraði. Thelma var ekki langt undan þegar hún, með 63 cm. bætingu, rauf í fyrsta sinn 12 metra múrinn og kastaði 12,29 m. Sólveig Helga GuðjónsdóttirSelfossi sigraði svo í 800 m hlaupi í flokki 16-17 ára á tímanum 2:41,49 mín.

Fullorðinsflokkur:
Þessi flokkur var skipaður fjórum körlum og einni konu. Karlarnir náðu allir á pall. Ólafur Guðmundsson Laugdælum varð annar í kúluvarpi með 13,23 m kasti. Hann sigraði í 60 m grindahlaupi á 8,87 sek þar sem Hreinn Heiðar Jóhannsson, einnig úr Laugdælum, varð þriðji á 9,44 sek. Hreinn varð svo þriðji í hástökki með 1,95 m sem er jafnhátt og fyrsta og annað sætið. Spretthlauparinn Haraldur Einarsson Vöku varð annar í 60 m hlaupi, aðeins einu broti frá sigri er hann rann skeiðið á 7,22 sek sem er ekki langt frá hans besta. Þeir Haraldur og Bjarni Már Ólafsson, einnig úr Vöku, tóku svo silfur og brons í þrístökki, Halli með 13,61 m og Bjarni Már með 13,47 m. Þriðji HSK keppandinn Hreinn Heiðar varð svo fimmti með 12,60 m. Langt er síðan HSK hefur verið með þetta marga keppendur í þrístökki karla, sem er ánægjuleg þróun þar sem þrístökk hefur í gegnum tíðina verið með sterkari greinum HSK.

Ólafur Guðmundsson