Skráning hafin á Unglingalandsmótið

unglingalandsmotsmerki_-_tomt1
unglingalandsmotsmerki_-_tomt1

Opnað hefur verið fyrir skráningar á Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður í Borgarnesi um verslunarmannahelgina. Mótið er fyrir 11-18 ára og þarf aðeins að greiða eitt þátttökugjald. Gjaldið er 7.000 krónur og er hægt að skrá sig til keppni í fleiri en einni grein fyrir þetta eina verð. Keppni hefst 28. júlí næstkomandi og verður mótinu slitið 31. júlí.

Keppt verður í körfubolta, knattspyrnu, frjálsíþróttum, glímu, ólympískum lyftingum, skotfimi, stafsetningu og mörgu fleira.

Boðið verður jafnframt upp á mikið af skemmtilegri afþreyingu og tónlist. Kvöldvökur verða haldnar mótsdagana í Borgarnesi. Á meðal þeirra tónlistarmanna sem fram munu koma eru Emmsjé Gauti, Úlfur Úlfur, hljómsveitin Amabadama, Hafnfirðingurinn Jón Jónsson bróðir hans Friðrik Dór, Dikta, Glowie og margir fleiri.

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus íþrótta- og fjölskylduhátíð. Komdu á Unglingalandsmót UMFÍ í Borgarnesi um verslunarmannahelgina!

Skráning fer fram á heimasíðu UMFÍ.