Stelpurnar sóttu þrjú stig norður

5N0A6378
5N0A6378

Stelpurnar kíktu í heimsókn norður á Akureyri í 15. umferð Pepsi-Max deildar kvenna. Gríðarlega mikilvægur leikur í baráttunni um 3. sæti deildarinnar sem Selfoss og Þór/KA eru að keppast um í Íslandsmóti þar sem Breiðablik og Valur hafa eignað sér baráttuna um Íslandsmeistaratitil.

Heimakonur byrjuðu leikinn betur og það tók okkar stelpur nokkrar mínútur að koma sér í gang en bæði lið fengu góð færi í fyrri hálfleik. Hulda Ósk Jónsdóttir fékk frábært færi á 21.mínútu leiksins en afgreiðsla hennar slök og auðvelt fyrir Kelsey Wys í marki Selfoss að verja í horn. Skömmu áður hefði Allison Murphy getað komið Selfoss í forystu eftir gott spil en skot hennar hafnaði í stönginni.

Fyrsta mark leiksins kom hins vegar upp úr engu eftir hálftíma leik. Boltanum var þá þrýst hátt í loft upp inn á vítateig Þórs/KA þar sem Arna Sif Ásgrímsdóttir náði ekki að skalla boltann í burtu og Grace Rapp var fyrst að átta sig í teignum til að koma boltanum fram hjá Bryndísi Láru Hrafnkelsdóttur í marki Þórs/KA.

Í kjölfarið lögðust Selfosskonur aftar á völlinn og á 40.mínútu fékk Sandra Mayor algjört dauðafæri. Hún fékk fullt af tíma til að athafna sig á teig gestanna eftir gott spil upp vinstri kantinn en afreiðsla mexíkóska markahróksins vægast sagt léleg og framhjá markinu.

Á lokamínútu fyrri hálfleiks náðu Selfyssingar frábærri skyndisókn sem Magdalena Anna Reimus batt endahnútinn á eftir góðan samleik við Allison Murphy. Gestirnir því með 0-2 forystu í leikhléið eftir galopinn fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur var töluvert bragðdaufari en sá fyrri. Þór/KA var meira með boltann en sóknarleikur liðsins máttlaus og í þau skipti sem liðið komst í álitlegar stöður í vítateig Selfoss var færanýtingin afleit.

Sandra Mayor gaf aðdáendum Þór/KA þó von fyrir lokamínúturnar þegar hún skoraði á 74.mínútu eftir frábæra sendingu Láru Kristínar Pedersen. Það virtist þó ekki færa Þór/KA neinn aukakraft því marki Selfoss var ekki ógnað eftir það og lokatölur 1-2 fyrir Selfossi. 

Selfoss komst með þessum sigri í 3. sæti Pepsi Max deildar kvenna, spennandi lokabarátta framundan!

Áfram Selfoss

---

Ljósmynd: Umf. Selfoss/Guðmundur Karl