Fimleikar - KK eldri
Um helgina fór bikarmót í hópfimleikum hjá 1. flokki, 2. flokki og KK eldri og yngri fram í íþróttahúsi Stjörnunnar í Ásgarði. Fimleikadeild Selfoss sendi fimm lið á mótið.
Lið KK eldri, strákar fæddir 2007-2009, gerði sér lítið fyrir og sigruðu sinn flokk með 31,845 stig eftir harða og jafna keppni fjögurra liða. Strákarnir voru krýndir bikarameistarar, glæsilegur árangur hjá þeim. Ungt lið KK yngri sem samanstendur af strákum fæddum 2010 og 2011 stóð sig vel í sínum flokki og varð í þriðja sæti með 25,410 stig.
Í 2. flokki stúlkna átti Selfoss eitt lið sem endaði í sjötta sæti með 42,160. Í 1. flokki átti Selfoss tvö lið, stúlknalið og blandað lið stúlkna og drengja. Bæði liðin stóðu sig vel á mótinu en mikið var í húfi, miði á Norðurlandamót unglinga sem fram fer í Danmörku 18. apríl nk. Mótið um helgina var seinna úrtökumótið fyrir Norðurlandamótið. Stúlkurnar í 1. flokki enduðu í öðru sæti með einkunnina 48,385 stig eftir glæsilegar æfingar en það dugði því miður ekki til í keppninni um farmiðann á NM. Í keppni blandaðra liða endaði ungt lið Selfoss í öðru sæti með einkunnina 39,275 rétt á eftir liði Stjörnunnar. Þau úrslit nægja þar sem Selfoss sigraði á fyrra úrtökumótinu og er liðið á leiðinni á Norðurlandamótið. Það er frábær árangur og verður gaman að fylgjast með þeim í því verkefni.
Um næstu helgi verður seinni hluti bikarmótsins keyrður. Þar verður keppt í 3.-5.flokki og mun fimleikadeild Selfoss senda sjö lið til þátttöku.
sóh
---
Á mynd með frétt eru bikarmeistarar Selfyssinga í eldri flokki karla.
Ljósmyndir frá þjálfurum og foreldrum Umf. Selfoss
KK yngri
2. flokkur kvk
1. flokkur kvk
1. flokkur blandað lið