Basti sport_.is
Selfoss þurfti að játa sig sigraða á móti Víkingum í 1. deildinni í handbolta í gær. Selfyssingar byrjuðu vel og voru yfir allan fyrri hálfleikinn en staðan var 11 – 9 fyrir Selfoss í leikhléi. Heimamenn komust svo í 13 – 10 fljótlega í seinni hálfleik en þá tók við góður kafli Víkinga og var þá eins og allur vindur væri úr Selfyssingum sem voru allt of fljótir að gefast upp við að lenda undir. Mestur varð munurinn fimm mörk gestunum í hag. Selfoss náði að minnka muninn í þrjú mörk en lengra náðu þeir ekki og 20 – 24 tap staðreynd.
Sverrir Pálsson var markahæstur með 4 mörk ásamt Andra Má sem skoraði einnig fjögur, þar af 3 úr víti. Matthías, Jóhann Erlings og Egidijus skoruðu þrjú, Hörður tvö mörk og Daníel Arnar skoraði eitt. Sebastian átti góða spretti í markinu, var með 16 varða bolta eða 40% markvörslu, þar af fimm varin víti.
Nánari umfjöllun um leikinn má sjá á Sunnlenska.is.
Næsti leikur liðsins er á útivelli föstudaginn 3. október klukkan 20:00, á móti Gróttu í Hertz höllinni. Ekkert annað en tvö stig koma til greina úr þeim leik en samkvæmt spá forráðamanna allra liða er Gróttu spáð þriðja sætinu í deildinni, Selfossi öðru sæti og Víkingum því fyrsta.
Mynd: Sebastian Alexanderson /sport.is