Umf. Selfoss - Æfingar eftir C19 (3)
Ef fram fer sem horfir með tilslökunum á takmörkunum á samkomum, skólahaldi og skipulögðu íþróttastarfi þann 4. maí nk. munu æfingar hjá deildum Umf. Selfoss taka breytingum á sama tíma. Eins og fram hefur komið leggur sóttvarnalæknir til að slakað verði á takmörkunum í skrefum sem endurskoðuð verði með þriggja til fjögurra vikna millibili.
Æfingar verða utandyra hjá iðkendum á leik- og grunnskólaaldri en þó háðar þeim takmörkunum að ekki fleiri en 50 einstaklingar verða saman í hóp og halda skal tveggja metra fjarlægð eftir því sem það er unnt, einkum hjá eldri börnum.
Annað skipulagt íþróttastarf er heimilt utandyra með þeim takmörkunum að ekki fleiri en fjórir einstaklingar æfa eða leika saman, snertingar eru óheimilar, halda skal tveimur metrum á milli einstaklinga og notkun á sameiginlegum búnaði skal haldið í lágmarki en annars skal sótthreinsa hann á milli notkunar.
Frá lokum mars hafa deildir Umf. Selfoss veitt iðkendum þjónustu í formi fjarþjálfunar til að koma til móts við iðkendur í samkomubanni og fyrirhugað er að lengja æfingatímabil eftir því sem kostur er. Nánari útfærsla hjá hverri deild fyrir sig verður kynnt fyrir 4. maí.