Þrettándagleði á Selfossi 2025

Þrettándinn á Selfossi 2021. / Ljósmynd: Hallgrímur Páll Helgason.
Þrettándinn á Selfossi 2021. / Ljósmynd: Hallgrímur Páll Helgason.

Jólin verða kvödd á Selfossi með glæsilegri þrettándagleði mánudaginn 6. janúar. Gleðin verður með hefðbundnu sniði og sér Ungmennafélag Selfoss um framkvæmdina. Að vanda verður farin blysför frá Tryggvaskála kl. 20:00 að brennustæði á tjaldstæði Gesthúsa þar sem kveikt verður í þrettándabálkesti.

Jólasveinarnir kveðja og álfar og tröll mæta á svæðið. Þá verður glæsileg flugeldasýning í umsjón félagsins í góðri samvinnu við Björgunarfélag Árborgar.

Gaman væri að sjá sem flesta bæjarbúa í trölla-, álfa- eða jólasveinabúningum.

Þeim sem taka þátt í blysförinni er bent á bílastæði við Ráðhúsið, Krónuna, Hótel Selfoss og í nýju bílastæðahúsi í Miðbæ Selfoss. Nokkur bílastæði eru við Austurveg en á leið göngunnar að brennustæðinu er nokkur fjöldi góðra bílastæða við leikskólann Álfheima og Vallaskóla, við Sundhöll Selfoss og Fjölheima. Vegna blysfararinnar lokast Engjavegur frá Reynivöllum að Rauðholti og er fólki bent á að leggja í nálæg bílastæði. Má nefna að mikill fjöldi bílastæða er við íþróttahúsið Iðu og Fjölbrautaskóla Suðurlands auk góðra bílastæða við leikskólann Hulduheima. Þá eru og bílastæði við Selið en eins og áður segir er mælst til þess að bílum sé ekki lagt við Engjaveg á milli Reynivalla og Rauðholts

Þar sem fjöldi ungra barna sækir þrettándagleðina er þeim tilmælum beint til fólks að vera ekki með flugelda nærri blysförinni eða við brennuna.

Fólk er hvatt til að fylgjast með fréttum ef veðurspáin lítur illa út.

Ungmennafélag Selfoss og Sveitarfélagið Árborg