Bæði liðin í 4. flokki karla féllu á dögunum úr leik í 8-liða úrslitum.
B-liðið mætti Haukum í leik sem var vel leikinn hjá strákunum, sérstaklega í síðari hálfleik. Okkar menn áttu erfitt uppdráttar framan af og undir 11-5 í hálfleik. Eftir það komust strákarnir í gang og fór sóknarleikurinn að ganga mikið betur en í fyrri hálfleik. Strákarnir söxkuðu jafnt og þétt á forskot Haukamanna en náði þó ekki að jafna leikinn og lokatölur 22-18.
Í liðið vantaði nokkra leikmenn sem spilað hafa í vetur og hafði það sitt að segja. Það er hins vegar gaman að sjá framfarir leikmanna liðsins sem voru í hörkuleik gegn Haukum og að spila sína bestu leiki til þessa undir lok keppnistímabilsins. Forvitnilegt verður að fylgjast með framvindu leikmanna á næsta ári.
A-liðið mætti ÍBV en fyrir leikinn hafði Selfoss unnið allar þrjár viðureignir þessara liða í vetur. Úrslitakeppnin er hins vegar allt önnur keppni þar sem ekkert gildir nema einn leikur og að þessu sinni var ÍBV betra. Eyjamenn mættu betur undirbúnir í leikinn, þeir virtust hafa meiri vilja til að spila leik sem var upp á allt eða ekkert og meira gaman af einnig. Lokatölur urðu 22-24 sigur ÍBV eftir að þeir hafi verið fjórum mörkum yfir í hálfleik.
Það vantaði mikið uppá í þessum leik. Leikmenn Selfoss mættu ekki klárir í leikinn og var spennustig okkar manna engan veginn í jafnvægi. Það leiddi til þess að leikmenn tóku rangar ákvarðanir, brenndu af góðum færum og sáu ekki opnanir sem voru fyrir framan þá. Liðið því úr leik og skilur það eftir áhugaverðar spurningar fyrir framhaldið, svo sem hvernig leikmenn muni bregðast við þessu tapi og hvort þeir muni læra af þessum leik?
Áfram Selfoss!