Úthlutað úr Afreks- og styrktarsjóði Umf. Selfoss og Árborgar

Afreksssjóður 2013
Afreksssjóður 2013

Á fundi framkvæmdastjórnar Umf. Selfoss í desember var gengið frá úthlutun rúmlega 2,3 milljóna króna úr Afreks- og styrktarsjóði Umf. Selfoss og Sveitarfélagsins Árborgar. Tilkynnt var um úthlutunina á uppskeruhátíð Íþrótta- og menningarnefndar Árborgar sem haldin var í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurlands þann 30. desember sl. Alls bárust sjoðnum 100 umsóknir og var heildarupphæð umsókna rúmlega 7,3 milljónir króna.

Sjö einstaklingar hlutu hæsta styrk að upphæð 100 þúsund krónur. Það eru frjálsíþróttakonan Fjóla Signý Hannesdóttir, handknattleiksfólkið Einar Sverrisson og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, júdómaðurinn Egill Blöndal Ásbjörnsson, knattspyrnukonan Guðmunda Brynja Óladóttir og taekwondofólkið Daníel Jens Pétursson og Ingibjörg Erla Grétarsdóttir. Allt er þetta íþróttafólk í fremstu röð á Íslandi og félaginu til mikils sóma hvort sem er í keppni eða æfingum.

Þá hlutu 17 einstaklingar styrk að upphæð 50 þúsund krónur auk þess sem rúmlega 750 þúsund krónum var úthlutað vegna æfinga- og keppnisferða, námskeiða og ýmissa verkefna á vegum deilda félagsins.

Ungmennafélagið vill koma á framfæri hamingjuóskum til allra styrkþega og vonar að styrkurinn hvetji þau til enn frekari dáða á vettvangi félagsins.

Jafnframt þakkar félagið Sveitarfélaginu Árborg fyrir góðan stuðning við öflugt íþróttastarf félagsins.

Afreks- og styrktarsjóður Umf. Selfoss og Árborgar - Úthlutanir 2013

---

F.v. Fjóla, Gumma, Danni, Hanna, Egill, Ingibjörg, Einar og Kristín Bára formaður Selfoss.
Mynd: umfs.is/Gissur