4. flokkur í undanúrslit bikars

hsi_rammi_1039600112
hsi_rammi_1039600112

Strákarnir í 4.  flokki karla mættu Stjörnunni í gær í 8-liða úrslitum bikarkeppninnar. Leikurinn fór fram í Mýrinni í Garðarbæ. Eftir að hafa verið undir í byrjun síðari hálfleiks kláruðu Selfyssingar leikinn með frábærum kafla seinustu 20 mínútur  leiksins og sigruðu 21-28.

Selfoss komst í 0-4 og var þá eins og menn hefðu haldið að sigurinn væri tryggður. Svo var alls ekki. Stjarnan ætlaði greinilega að selja sig afar dýrt í leiknum en þeir börðust vel í vörninni og mikil stemmning var innan þeirra búða. Heimamenn jöfnuðu í 6-6 og voru þeir komnir 13-10 þegar skammt var til hálfleiks. Selfyssingar gerðu afar vel með því að skora seinustu 2 mörk hálfleiksins og laga stöðuna í 13-12 í hálfleik.

Stjarnan hélt áfram að hafa yfirhöndina í seinni hálfleik upp í 17-15. Komst þá Selfoss vélin í gang og þá var ekki aftur snúið. Frábær varnarleikur og vel útfærður sóknarleikur skilaði liðinu 4-13 kafla undir lok leiks og lauk leiknum með 21-28 sigri Selfyssinga.

Í síðari hálfleik snérist stemmningin í leiknum algjörlega og voru það Selfyssingar sem ætluðu sér greinilega meira. Allt frá þeim sem sátu á bekknum til þeirra sem voru inná myndaðist gríðarlega mikil leikgleði sem skilaði sér í gjörbreyttri og bættri spilamennsku. Þessi sigur var ekki sá fallegasti en hann telur og var nokkuð skemmtilegur að auki.

Selfoss er því komið í undanúrslit bikarsins og nú einungis einum leik frá því að komasta í einn flottasta leik ársins í sjálfri Laugardalshöllinni.