Herjólfur
4. flokkur karla fór til Vestmannaeyja um helgina að leika gegn ÍBV. Strákarnir mættu með flottu viðhorfi í ferðina og léku tvo mjög flotta leiki. Fór svo að 98 liðið sigraði 24-25 og 97 liðið 28-39.
Leikurinn hjá 98 liðinu var jafn og spennandi allan leikinn. Eyjamenn voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik en hægt og bítandi áttuðu Selfyssingar sig á að þeir ættu mjög góðan möguleika á sigri í leiknum. 13-13 var í hálfleik. Selfoss komst í 15-17 en heimamenn voru svo komnir 21-19 yfir. Selfyssingar neituðu að gefast upp og skoruðu sigurmark leiksins þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum. 24-25 sigur staðreynd.
Heilt yfir var vörnin mjög góð hjá liðinu. Baráttan var til staðar og liðið að skora nokkur mörk úr hraðaupphlaupum. Sóknarlega var línuspilið mjög gott auk þess sem innleysingar skiluðu þónokkrum mörkum. Flottur sigur hjá strákunum sem vonandi sýnir þeim að það er ýmislegt mögulegt þegar menn gefa sig alla í leikina.
Hjá 97 liðinu var jafnt upp í 11-11. Varnarleikurinn hafði þá ekki verið góður enda einungis helmingur fyrri hálfleiks liðinn í þessari stöðu. Small þá leikur Sefyssinga algjörlega saman og stuttu seinna var liðið komið 13-21 yfir. Var öll stemmning þá Selfoss megin. Hálfleikstölur voru 15-22. Í seinni hálfleik var Selfoss áfram á undan og lokatölur 28-39.
Í sókninni fékk Selfoss góð færi í nánast hverri einustu sókn. Í kjölfarið af því var skotnýting liðsins frábær. Varnarleikurinn hefur oft verið betri í vetur en þar vantaði eitthvað aðeins uppá. Vörnin hefur verið aðalsmerki liðsins í vetur og hljóta strákarnir að ætla að ná henni strax aftur inn fyrir næsta leik.
Næsti leikur 4. flokks er fimmtudaginn 28. febrúrar þegar Selfoss mætir Gróttu í undanúrslitum bikarsins. Við hvetjum fólk til að fjölmenna á leikinn og styðja strákana. Með sigri tryggja Selfyssingar sér sæti í bikarúrslitaleiknum sem fram fer í sjálfri Laugardalshöllinni.