screenshotafsíma
Iðkendur knattspyrnudeildar Selfoss hafa ekki farið varhluta að því samkomubanni sem er í gildi á Íslandi. Hefðbundnar æfingar hafa fallið niður og í staðin hafa þjálfarar deildarinnar verið afar duglegir að senda iðkendum sínum heimaæfingar með það að markmiði að viðhalda líkamlegri og andlegri heilsu ásamt því að taka framförum í fótbolta.
Því er þó ekki að neita að þjálfarar knattspyrnudeildarinnar sakna iðkenda sinna sem við erum vön að hitta nánast daglega mjög mikið, en við vitum að þau eru í góðum höndum. Hver og einn iðkandi er með besta þjálfarann fyrir sig hvort sem það er mamma, pabbi, systkini eða bara maður sjálfur.
Heima - Æfingin skapar meistarann
Frasinn um að æfingin skapi meistarann hefur sennilega aldrei átt betur við en akkúrat núna.
Þjálfarar knattspyrnudeildarinnar útbúa vikulega heimaæfingar fyrir alla iðkendur deildarinnar í gegnum Sideline forritið (XPS network) sem iðkendur knattspyrnudeildarinnar hafa aðgang að án endurgjalds.
Heimaæfingarnar hafa farið ótrúlega vel af stað. Þær eru blanda af tækni, styrk og úthaldsæfingum en einnig blanda af fjölbreyttari hreyfingum eða hugarþjálfun.
Gaman er að fylgjast með því hvað margar fjölskyldur iðkenda hafa tekið sig saman og gera æfingarnar saman og það er einmitt það sem við viljum. Við tökum eftir því að fjölskyldur iðkenda fara meira út að leika eða í göngu saman eða gera æfingar heima í stofu.
Við þjálfarar viljum þakka ykkur foreldrar og forráðamenn hvað þið hafið tekið vel í heimaæfingarnar, hvað þið eruð jákvæð og við vitum að við eigum eftir að hitta jákvæða krakka mjög fljótlega sem hafa fengið að njóta fótboltans með fjölskyldunni sinni, eitthvað sem þau eiga eftir að muna og búa að út lífið.
Munum að vera góð við hvort annað, tala saman og hreyfa okkur á hverjum degi. Höfum hugfast að leikurinn er ekki búinn fyrr en dómarinn flautar af og þá munum við saman standa uppi sem sigurvegarar.
Með von um áframhaldandi gott og skemmtilegt samstarf við foreldra og iðkendur Selfoss.
Gunnar Borgþórsson
Yfirþjálfari yngri flokka Selfoss