Að búa í góðu samfélagi og taka þátt.

Það er gefandi og uppbyggjandi að taka þátt í starfi frjálsra félagasamtaka. Þar lærir maður að taka þátt í fjölbreyttu sjálfboðaliðastarfi, hvort heldur er við einstaka viðburði, skipulagningu og framkvæmd, fjáraflanir, ýmiskonar skipulag verkefna, stjórnarstörf og stefnumótun. Þú velur það verkefni sem þér hentar og þann tíma sem þér hentar. Umfram allt þá ertu þátttakandi í gefandi starfi sjálfboðaliðans. Félögin eru mismunandi að stærð og verkefnin mismunandi. Það geta verið íþróttafélög, kvenfélög, ungmennafélög, líknarfélög, stéttarfélög og pólitísk félög, svo fátt eitt sé nefnt. Starfsemi margra þessara félaga byggist að langmestu leiti á sjálboðaliðastarfi og ef þess nýtur ekki við er starfsemin í hættu og getur lognast útaf. Í þessu starfi þá kynnist maður fjölda fólks, lærir að virða skoðanir annarra, stjórna fundum, koma fram og valdeflast. En vá er fyrir dyrum.

Hvar er sjálfboðaliðinn?

Á undanförnum árum, og nú sérstaklega eftir Covid tímabilið, virðist vera æ erfiðara að fá fólk til að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi, koma og taka þátt í gefandi starfi, aðstoða við ýmsan undirbúning og vera virkt í félagsmálum. Hvað hefur breyst og hvers vegna erum við á þessari braut? Hér áður fyrr var ungu fólki markvisst kennt ýmislegt sem tengist sjálfboðaliðastarfi. Því var kennd ræðumennska, fundarsköp, að vera í stjórnum og ýmislegt annað sem nýttist því vel og það gaf sig í þetta starf og var virkt í félagsstarfi. Nú er eins og við séum að stefna í kynslóðaskipti þar sem ungt fólk, ekki bara unglingar, heldur allt að þrítugu, bara viti ekki mikilvægi þessa starfs og nauðsyn þess að taka þátt í því , á einn eða annan hátt. Við sjáum þetta hjá íþróttafélögum, þar sem illa gengur að manna stjórnir þeirra, erfitt er að fá foreldra eða aðra til að aðstoða við framkvæmd móta eða skipuleggja annað starf, barna og unglinga.

Viljum við þetta?

Það er ljóst hvað íþróttahreyfinguna varðar, ef þessi þróun heldur áfram, og erfiðara og erfiðara, verður að fá fólk til aðstoðar, hvort heldur eru foreldrar og forráðamenn barna og unglinga, eða aðra, að þá stefnum við í mikil vandræði. Mót og viðburðir sem haldin eru af íþróttafélögum, eru að öllu jafna í leiðinni stórar fjáraflanir fyrir þau og skiptir þá miklu máli að fá sem flesta sjálfboðaliða til aðstoðar, í bæði stór og smá störf. Um leið og þessum fjármunum er safnað er verið að styrkja starf félaganna, rekstrarlega séð, og þá í mörgum tilvikum til þess að geta haldið æfingagjöldum foreldra eins lágum og mögulegt er. Þannig að um leið verði sem flestum, börnum og unglingum, mögulegt að stunda þær íþróttir sem þau hafa áhuga á. Einnig hefur þetta áhrif á afreksstarf félaganna og þá möguleika barna og unglinga að eflast í íþrótt sinni, uppí gegnum alla yngri flokka og eiga möguleika á að keppa í meistaraflokkum félaganna.

 

Stoppum þessa þróun og ég biðla til fólks að gefa því gaum að gefa af sér og taka þátt í þessum störfum, starfi sjálfboðaliðans, þegar kallið kemur og gefa þannig af sér og um leið styrkja starf frjálsra félaga, íþróttafélaga sem annarra. Öllum öðrum sem nú þegar taka þátt, er þakkað af heilum hug fyrir að vera með.

Helgi Sigurður Haraldsson, formaður UngmennafélagSelfoss.