Patrekur Jóhannesson
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss og landsliðsþjálfari Austurríkis fór með lið sitt á EM í Króatíu, en þetta er þriðja stórmót Austurríkis undir stjórn Patreks. Liðið tryggði sér sæti á mótið eftir að hafa unnið Bosníu 34-32 í hreinum úrslitaleik um sæti í lokakeppninni. Austurríki tapaði öllum sínum leikjum og komust því ekki í milliriðla, líkt og Ísland. Selfoss.net ræddi stuttlega við Patrek um gengi Austurríkis á mótinu og framtíð liðsins.
Þið lentuð í erfiðum riðli með Noregi, Frakklandi og Hvíta-Rússlandi og töpuðu öllum ykkar leikjum. Hvernig lítur þú yfir mótið heilt yfir?
Það var klárt fyrir mótið að við færum með 11 nýliða sem aldrei hafa farið á stórmót áður. Það kom á daginn að það er einfaldlega mjög mikill munur á okkur og t.d. Frakklandi og Noregi, hvað varðar líkamlegan styrk og úthald. Einnig voru Frakkar á öðru leveli varðandi leikskilning og gífurlega agaðir í öllum aðgerðum. Hvíta-Rússland er nær okkur í getu en þar er einnig munur hvar leikmenn spila. Landsliðsmenn Austurríkis spila flestir í HLA deildinni (Austurríska úrvalsdeildin) og er hún svipuð að styrkleika og Olísdeildin, en Hvít-Rússar eru með marga leikmenn sem spila í meistaradeildinni (t.d. í Brest og Minsk). Þessi keppni var góður lærdómur en ef lið eins og Austurríki ætlar að gera eitthvað á stórmótum þá þurfa fleiri leikmenn að spila í bestu deildunum, eins og í Þýskalandi eða Frakklandi. Aðeins einn leikmaður okkar spilar í meistardeildinni og er það Nikola Bylik hjá THW Kiel. Það er stórt vandamál hjá okkur hvað við eigum fáa atvinnumenn í bestu deildum Evrópu, en við erum að vinna í þessum málum.
Þið hafið væntanlega litið á fyrsta leikinn gegn Hvít -Rússum sem úrslitaleik hvort liðið færi upp úr riðlinum. Var leikurinn vonbrigði?
Það er rétt, við stilltum þeim leik sem úrslitaleik og það var þannig. Við náðum ekki að setja mörk úr hraðaupphlaupum sem hefur verið okkar styrkur og svo voru of margir leikmenn að spila undir pari og lið eins og okkar má ekki við slíku. Við vorum alltaf að elta en munurinn var aldrei mikill, en þegar maður horfir aftur á leikinn þá verður maður að sætta sig við að Hvít-Rússar voru betri þegar mest var undir í leiknum.
Austurríki hefur komist þrisvar sinnum á stórmót undir minni stjórn og það hefur engum öðrum tekist það í Austurríki, ég verð að taka þessum úrslitum og greina það sem gekk vel og einnig það sem var ekki gott. Síðan er næsta markmið að vinna umspil um að komast á HM í Þýskalandi og Danmörku 2019, en þar sem við enduðum í 15.sæti þá er öruggt að við fáum sterka andstæðinga í júní. Markmið mitt er samt skýrt, það er að ná inn á fjórða stórmótið með Austurríki.