Anna Óttar og Selma
Anna María Friðgeirsdóttir og Selma Friðriksdóttir skrifuðu í dag undir samninga við knattspyrnudeild Selfoss.
Anna María, sem er fyrirliði bikarmeistara Selfoss, framlengdi samning sinn til tveggja ára en Selma skrifaði undir sinn fyrsta samning og gildir hann út tímabilið 2022.
„Það er frábært að hafa náð samningum við þessa tvo leikmenn sem eru á ólíkum stað á ferlinum. Anna María er leikjahæsta konan í sögu Selfoss og hefur spilað 109 leiki í efstu deild en Selma steig sín fyrstu skref í meistaraflokknum í sumar. Báðar eru þær mikilvægir hlekkir í keðjunni sem við erum að styrkja hér á Selfossi,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.
Anna María og Selma eru báðar fjölhæfir leikmenn og spila oftast sem bakverðir en geta leyst fleiri stöður á vellinum.
Anna María, sem er 28 ára, hefur spilað 260 meistaraflokksleiki fyrir Selfoss í öllum keppnum frá árinu 2009. Selma, sem er 17 ára, hefur spilað 10 meistaraflokksleiki fyrir félagið, þar af þrjá í efstu deild þar sem hún skoraði einnig sitt fyrsta mark í sumar.
Anna María (t.v.) og Selma ásamt Óttari Guðlaugssyni, aðstoðarþjálfara Selfoss. Ljósmynd/UMFS