Þrír aðilar í stjórn knattspyrnudeildar Selfoss hafa ákveðið að stíga til hliðar og gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Jón Steindór, formaður, hefur setið í stjórn deildarinnar undanfarin 12 ár og verið viðloðandi störf deildarinnar og meistaraflokka alla þessa öld. Hjalti Þorvarðarson hefur tengst deildinni órjúfanlegum böndum og unnið mikið starf í þágu deildarinnar ásamt allri hans fjölskyldu. Eiríkur Búason hefur stýrt Íþrótta- og Félagsráði og unnið þar mikið og gott starf í deild sem hefur stækkað hraðar en flesta gat órað fyrir. Þeir félagar hafa þó ekki sagt skilið við deildina að fullu því þeir munu vera nýrri stjórn og framkvæmdastjóra innan handar ásamt því að starfa sem sjálfboðaliðar innan deildarinnar áfram.
Knattspyrnudeild Selfoss ber þeim heillaóskir fyrir þá öflugu vinnu sem unnin hefur verið innan deildarinnar undanfarin ár henni til heilla og framdráttar um ókomin ár.
Samtímis þessu óskar Knattspyrnudeild Selfoss eftir því að þeir sem hafa áhuga til að halda áfram þeirri vinnu sem hafin er í ört stækkandi félagi og hafa áhuga á að sitja í stjórn deildarinnar að hafa samband við stjórnarmenn eða framkvæmdastjóra deildarinnar.
Áfram Selfoss!