Blandað lið Selfoss heiðrað
Bronsverðlaunahafar Fimleikadeildar Umf. Selfoss frá Norðurlandamóti unglinga voru heiðraðir með óvæntum hætti í Baulu í gær. Liðsmenn og þjálfarar voru leyst út með gjafabréfum og blómum frá deildinni og bíómiðum frá Sveitarfélaginu Árborg.
Þóra Þórarinsdóttir formaður deildarinnar, Ásta Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Árborgar, Kjartan Björnsson formaður íþrótta- og menningarnefndar og Guðmundur Kr. Jónsson nýkjörinn formaður Umf. Selfoss töluðu til krakkanna og færðu þeim hamingjuóskir og hvöttu þau til frekari afreka á sömu braut.
Sérstaklega var ánægjulegt að formaður íþrótta- og menningarnefndar lét þess getið, við þetta tækifæri, að Sveitarfélagið Árborg hefði hug á að halda áfram markvissri uppbyggingu íþróttamannvirkja á Selfossi en eins og allir vita hefur fimleikadeildin fyrir löngu sprengt utan af sér aðstöðuna í Baulu.
Fjöldi aðstandenda, velunnara og fulltrúar styrktaraðila komu til að heiðra krakkana. Þetta er í fyrsta skipti sem félagslið innan Umf. Selfoss og HSK vinnur til verðlauna á Norðurlandamóti. Fimleikadeildin vill koma á framfæri þakklæti til styrktaraðila sem styrkja deildina og þetta verkefni sérstaklega en það eru SET, Íslandsbanki, Landform, Bílverk BÁ, Arionbanki, Lyfja og Under Armour.
Í dag, föstudaginn 25. apríl, tekur liðið þátt í Íslandsmótinu í hópfimleikum ásamt tveimur öðrum liðum frá Selfossi. Keppni hefst kl. 16:50 í Ásgarði í Garðabæ.