Tinna Sigurrós Traustadóttir skoraði 5 mörk í leiknum
Stelpurnar léku á laugardaginn gegn ÍBV í Vestmannaeyjum og fór leikurinn eftir góða baráttu okkar kvenna 27-32 fyrir Eyjakonum. Stelpurnar fóru í góða helgarferð til Eyja því þær þurftu að fara á föstudagskvöld og komust ekki heim fyrr en á sunnudag.
Jafnt var með liðunum í byrjun leiks en ÍBV byrjaði sinn varnarleik mjög framarlega í 3-3 vörn og eftir 10 mínútur var staðan 7-6 fyrir okkar stelpur. Næstu mínútur áttu ÍBV góðan kafla og komust í 10-14 þegar 20 mín voru liðnar. ÍBV konur héldu áfram að spila vel fram að hálfleik og var staðan að loknum fyrri hálfleik 12-19.
Seinni hálfleikur byrjaði ekki nægjanlega vel hjá okkar stelpum og héldu ÍBV konur nokkuð þægilegri forystu. Þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var staðan 20-28. Okkar stelpur náðu að laga stöðuna nokkuð það sem eftir lifði leiks en eins og áður sagði endaði leikurinn 27-32 fyrir ÍBV konum.
Stelpurnar eru því enn með 2 stig í 7. sætinu. Stutt er í næsta verkefni því stelpurnar spila á þriðjudagskvöld gegn FH í Kaplakrika í Bikarkeppni HSÍ.
Mörk Selfoss: Katla María Magnúsdóttir 7, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 5, Rakel Guðjónsdóttir 5, Tinna Sigurrós Traustadóttir 5, Emilía Ýr Kjartansdóttir 3, Inga Sól Björnsdóttir 1 og Katla Björg Ómarsdóttir 1.
Varin skot: Cornelia Hermansson 11 (26%) og Dröfn Sveinsdóttir 1 (50%).