Fimm verðlaun á MÍ innanhúss

frjalsar_mi_photo
frjalsar_mi_photo

Aðalhluti Meistaramóts Íslands í frjálsum íþróttum fór fram í Laugardalshöll, helgina 9. – 10. febrúar þar sem 149 keppendur frá 13 félögum öttu kappi. Fremsta frjálsíþróttafólk HSK/Selfoss var á meðal keppenda og stóðu sig vel. Fimm verðlaun féllu liðinu í skaut, eitt gull, tvö silfur og tvö brons, ásamt því að tvö HSK-met litu dagsins ljós.

Haraldur Einarsson, Vöku, gaf tóninn á fyrri degi mótsins er hann sigraði örugglega í 60 m hlaupi karla á tímanum 7,08 sek sem er bæting um þrjá hundruðustu. Óskum við Halla að sjálfsögðu til hamingju með Íslandsmeistaratitilinn. Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, fylgdi í kjölfarið með góðu hástökki. Fjóla stökk 1,70 m, aðeins einum cm frá sínu besta. Fjóla lenti í þriðja sæti eftir harða baráttu um Íslandsmeistaratitilinn, en tvær  stúlkur auk hennar fóru yfir 1,70 m. Fjóla hljóp svo ágætt 400 m hlaup á 57,99 sek og varð fjórða. Á sunnudeginum varð Fjóla síðan önnur í 60 m grindahlaupi, rétt við bætingu, tíminn 9,01 sek, en hún á best 9,00 sek. Fjóla endaði svo helgina á því að hlaupa 4x400 m boðhlaup ásamt Guðrúnu Heiðu Bjarnadóttur og Sólveigu Helgu Guðjónsdóttur, báðum frá Selfossi, og Evu Lind Elíasdóttur, Þór. Þær stóðu sig vel, settu glæsilegt HSK-met, tíminn 4:05,38 mín, og urðu í fjórða sæti.

Kristinn Þór Kristinsson, Samhygð, er í góðu formi þessa dagana. Hann hljóp gott 800 m hlaup og varð annar eftir hörkukeppni við Snorra Sigurðsson, ÍR, á tímanum 1:52,61 mín. Þess má til gamans geta að HSK-met Kristins sem hann setti í janúar er 1:51, 87 mín. Kristinn hljóp einnig gott 400 m hlaup og fór í fyrsta sinn undir 50 sek, tíminn 49,98 sek, en varð síðar dæmdur úr leik fyrir að stiga á línu. Svo tók Ágústa Tryggvadóttir, Selfossi, þriðja sætið í kúluvarpi kvenna með ársbesta árangri sínum, 11,63 m. Að lokum má geta þess að Sólveig Helga Guðjónsdóttir, Selfossi, bætti sig í 200 m hlaupi. Hún kom í mark á 26,48 sek, en hún átti áður 26,53 sek síðan fyrir tveimur árum. Þetta er HSK-met í hennar flokki 16-17 ára, sem og í 18-19 ára flokki og 20-22 ára flokki. Jóhann Guðmundsson, Selfossi, hljóp einnig 200 m hlaup á tímanum 25,71 sek sem er alveg við hans besta. Svo varð Thelma Björk Einarsdóttir, Selfossi, sjöunda í kúluvarpi með 9,66 m.

Á heildina litið er þetta fínn árangur og lofar góðu fyrir Bikarkeppni FRÍ sem haldin verður í Laugardalnum um næstu helgi. Þangað eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til að mæta og hvetja HSK-liðið til dáða.

 Óli Guðm. þjálfari