Fjóla Signý bikarmeistari í 60 m grindahlaupi í Bikarkeppni FRÍ

HSK1_bg
HSK1_bg

Sjöunda Bikarkeppni FRÍ í frjálsíþróttum innanhúss fór fram laugardaginn 16. febrúar s.l. í Laugardalshöllinni. HSK sendi sitt sterkasta lið til keppni sem náði ágætum árangri. Það samanstóð af ungum einstaklingum sem voru að þreyta frumraun sína í bikarkeppni sem og reynslumiklum jöxlum sem alltaf standa fyrir sínu. Eitt gull, eitt silfur og þrjú brons komu í hús, ásamt því að góður hluti keppenda HSK-liðsins bætti sig, ýmist persónulega eða náði sínum besta árangri á keppnistímabilinu. Keppendur liðsins settu fjögur HSK-met. Í heildina varð liðið í fimmta sæti af sex liðum. Þó nokkuð var um veikindi og meiðsli hjá lykilkeppendum. Undirrituðum reiknaðist til að HSK-liðið hefði orðið í þriðja sæti ef allt okkar sterkasta fólk hefði getað verið með.

Fimm verðlaun til HSK:
Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, fyrirliði kvennaliðsins, stóð sig vel að vanda. Hún sigraði fyrstu grein mótsins, 60 m grindahlaup og leiddi HSK því stigakeppni félaga að lokinni fyrstu grein. Hún varð svo þriðja í hástökki með 1,63 m. Haraldur Einarsson, Vöku, fyrirliði karlaliðsins, og nýkrýndur Íslandsmeistari í 6 0m hlaupi karla, stóð sig einnig vel. Hann varð annar í 60 m  hlaupinu á 7,16 sek. og þriðji í 6 0m grindahlaupi á 9,13 sek. Ágústa Tryggvadóttir, Selfossi, sem tognaði á MÍ um liðna helgi náði þrátt fyrir það þriðja sæti í kúluvarpinu, aðeins einum cm frá silfursætinu.

Fjögur HSK met:
Kristinn Þór Kristinsson, Samhygð, sem er mjög mikilvægur fyrir liðið í millivegalengdunum, keppti að þessu sinni í 400 m hlaupi og boðhlaupi. Hann ákvað að hvíla sínar vegalengdir að þessu sinni þar sem hann freistar þess að ná lágmarki á EM innanhúss í Svíþjóð í 800 m hlaupinu á danska meistaramótinu um næstu helgi. Kristinn stóð sig engu að síður vel og setti HSK-met í 400 m hlaupi karla, kom fjórði í mark á 50,20 sek. Gamla metið átti Halli Einars, en það var 50,47 sek. Þátt setti Sólveig Helga Guðjónsdóttir, Selfossi, einnig HSK-met í 40 0m hlaupi, hljóp á 61,39 sek., en hún átti áður 61,70 sek. Þetta er met í stúlknaflokkum 16-17 ára og 18-19 ára. Það var svo karlasveit HSK í 4x400m boðhlaupi sem setti síðasta HSK-metið í lokagrein mótsins, hljóp á tímanum 3:37,24 mín. Halli Einars., Vöku, Jóhann Guðm., Selfossi, Hreinn Heiðar, Laugdælum og Kristinn Þór, Samhygð, skipuðu sveitina. Gamla metið var 3:41,58 mín.

Ungir og efnilegir með bætingar:
Ungir og efnilegir keppendur komu töluvert við sögu hjá HSK-liðinu í þessari Bikarkeppni og stóðu sig vel. Eyrún Gautadóttir, Baldri, bætti sig úr 2:53,02 mín í 2:39,76 mín í 800 m hlaupinu. Styrmir Dan Steinunnarson 14 ára úr Þór leysti Bjarna Má, sem var meiddur, af í langstökkinu og bætti sig um rúma tuttugu cm, stökk 5,66 m. Þá bætti Jóhann Guðmundsson Selfoss sig um 5 sek. í 800 m hlaupinu, tíminn 2:10, 15 mín. Í þrístökki karla tók Fannar Þór Rafnarsson 15 ára úr Þór sæti Bjarna Más og stóð sig vel. Í 1500 m hlaupi karla hljóp Teitur Örn Einarsson 15 ára frá Selfossi og sótti mikilvægt stig í hús. Í stangarstökki kvenna keppti Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi og bætti sig um 10 cm er hún stökk 2,00 m. Samstaða og góður andi einkenndi HSK-liðið og að vanda átti klappliðið okkar stúkuna.

Í heildarstigakeppninni varð HSK í 5. sæti af sex liðum með 68 stig. ÍR-A sigraði eftir hörkukeppni við Norðurland, með 119 stig og endurheimti titilinn. FH varð í þriðja sæti. Kvennaliðið lið HSK varð í 4. sæti og karlaliðið í því 5.

Annars varð árangur keppenda HSK eftirfarandi:
Fjóla Signý Hannesdóttir              Selfoss          60m grindahlaup     9,02 sek                       nr. 1
Fjóla Signý Hannesdóttir              Selfoss          Hástökk                 1,63 m                         nr. 3
Haraldur Einarsson                       Vöku             60m. hlaup              7,16 sek                        nr. 2
Haraldur Einarsson                       Vöku             60m. gr.hlaup         9,13 sek                       nr. 3
Hreinn Heiðar Jóhannsson            Laugdælir      Hástökk                 1,80 m                         nr. 4
Sólveig Helga Guðjónsdóttir         Selfoss          400m. hlaup           61,39 sek (HSK-met)         nr. 5
Kristinn Þór Kristinsson               Samhygð       400m.hlaup            50,20 sek (HSK-met)         nr. 4
Eva Lind Elíasdóttir                      Þór               60m. hlaup             8,29 sek                       nr. 5
Eva Lind Elíasdóttir                      Þór               200m. hlaup           26,92 sek                            nr. 4
Fannar Yngvi Rafnarsson             Þór               200m. hlaup           25,95 sek (ársbest)          nr. 6
Ágústa Tryggvadóttir                   Selfoss          Kúluvarp                10,87 m                       nr. 3
Ólafur Guðmundsson                   Laugdælir      Kúluvarp                13,12 m (ársbest)            nr. 4
Guðrún Heiða Bjarnadóttir           Selfoss          Þrístökk                 10,24 m                       nr. 5
Fannar Yngvi Rafnarsson             Þór               Þrístökk                 11,59 m                       nr. 5
Guðrún Heiða Bjarnadóttir           Selfoss          Langstökk              4,61 m                         nr. 5
Styrmir Dan Steinunnarson           Þór               Langstökk              5,66 m (pers.best)            nr. 6
Eyrún Gautadóttir                        Selfoss          800m. hlaup           2:39,76 mín (pers.best)     nr. 6
Jóhann Guðmundsson                   Selfoss          800m. hlaup            2:10,15.mín (pers.best)      nr. 6
Thelma Björk Einarsdóttir            Selfoss          Stangarstökk          2,00 m (pers.best)            nr. 6
Hreinn Heiðar Jóhannsson            Laugdælir      Stangarstökk          2,80 m                         nr. 6
Thelma Björk Einarsdóttir            Selfoss          1500 m. hlaup        7:02,48 mín.(ársbest)       nr. 6
Teitur Örn Einarsson                    Selfoss          1500 m. hlaup        5:09,48 mín (ársbest)       nr. 6
4x400m boðhlaup: (Guðrún Heiða, Sólveig Helga, Eva Lind, Fjóla Signý)         4:09,61 mín                        nr. 5
4x400m boðhlaup: (Jóhann G., Halli Einars., Hreinn Heiðar, Kristinn Þór)       3:37,24 mín (HSK-met)    nr. 4

Ólafur Guðmundsson