Frjálsar - Sigursveit HSK-Selfoss 16-17 ára
Um liðna helgi fór Unglingameistaramót Íslands fram á Kaplakrikavelli i Hafnarfirði. HSK/Selfoss sendi öflugt lið til keppi að venju og var uppskeran mjög góð. Okkar fólk vann til 42 verðlauna, 22 gull, tíu silfur og tíu brons. Fjögur HSK-met litu dagsins ljós auk 22 persónulegra bætinga.
HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari í einum flokki, þ.e. flokki 16-17 ára pilta. Í heildarstigkeppninni varð HSK/Selfoss í þriðja sæti með 301 stig aðeins 4,5 stigi á eftir Breiðablik sem varð í öðru sæti en það var lið ÍR sem sigraði.
Selfyssingurinn Eva María Baldursdóttir stóð sig vel í hástökkinu, stökk 1,78 m, bætti sig um einn sentimetra og setti í leiðinni mótsmet og HSK-met í þremur flokkum stúlkna; 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára. Eva María átti þessi HSK-met sjálf. Hún átti svo góðar tilraunir við 1,81 m sem hefði verið bæting á Íslandsmetinu í hennar flokki um einn sentimetra.
Benjamín Guðnason einnig úr Selfoss bætti HSK-metið í sleggjukasti 16-17 ára, kastaði 40,38 m. Gamla metið var 38,28 m í eigu Sigþórs Helgasonar og var orðið sjö ára gamalt.
Sindri Seim Sigurðsson úr Heklu bætti sitt eigið HSK met í 200 m hlaupi í flokki 16-17 ára og 18-19 ára um 5 brot úr sekúndi, hljóp á 22,92 sek.
Að síðustu setti Dagur Fannar Einarsson úr Selfoss HSK met í 400 m grindahlaupi á 56,58 sek. en gamla metið átti hann sjálfur frá í fyrra og í 110 m grindahlaupi 15,88 sekúndur en þar bætti hann 26 ára gamalt met Selfyssingsins Magnúsar Arons Hallgrímssonar sem var 16,2 sekúndur.
Sextán einstaklingar innan raða HSK/Selfoss unnu til þessara 22 Íslandsmeistaratitla. Dagur Fannar Einarsson, Selfossi vann flesta eða þrjá, Goði Gnýr Guðjónsson, og Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Heklu ásamt Sebastian Þór Bjarnasyni, Selfoss tóku tvo titla hver. Auk Evu Maríu og Benjamíns voru það Einar Árni Ólafsson úr Þjótanda, Hjalti Snær Helgason, Hreimur Karlsson og Elín Karlsdóttir úr Selfoss, Auður Helga Halldórsdóttir, Bríet Anna Heiðarsdóttir, Róbert Khorchai Angeluson og Viktor Karl Halldórsson úr Þór, Martin Patryk Srichakham úr Heklu og Árbjörg Sunna Markúsdóttir úr Garpi sem unnu einn titil hver. Auk þess sigraði sveit HSK/Selfoss í 4x100 metra boðhlaupi pilta 20-22 ára.
Öll úrslit mótsins má finna á Þór, mótaforriti FRÍ
óg
---
Sigursveit HSK/Selfoss í flokki 16-17 ára pilta. F.v. Goði Gnýr úr Heklu, Benjamín úr Selfoss, Sebastían Þór úr Selfoss, Niklas Hansen Grétarsson úr Selfoss og Hrunamaðurinn Haukur Arnarsson.
Ljósmynd Umf. Selfoss/Dýrfinna Sigurjónsdóttir