Einar Sverrisson gegn Gróttu
Enn einn sigur hjá mfl. karla í handbolta. Núna var það lið Fjölnis sem varð að játa sig sigrað en lokatölur leiksins urðu 29-23. Leikmenn Selfoss hafa oft spilað betur en þeir áttu í smá basli með að hrista Fjölni af sér í fyrri hálfleik en í hléi var staðan 12-9. Gunnar þjálfari fór greinilega vel yfir málin í hléi og kom liðið mun ákveðnara til leiks eftir hlé. Munurinn var samt aldrei mikill en sigur aldrei í hættu og lokatölur 29-23 eins og áður sagði.
Greinilegt er að leikmenn Selfoss hafa nýtt tímann vel síðust tvær vikur en þeir voru frekar þungir á sér eftir erfiðar æfingar. Strákarnir ætla langt og stefna á að toppa á réttum tíma í umspili og úrslitum um sæti í úrvalsdeild.
Næsti leikur liðsins er erfiður útileikur á móti Aftureldingu en sá leikur fer fram þriðjudaginn 15. apríl klukkan 19:30 í Mosfellsbæ. Afturelding þarf eitt stig til að tryggja liðinu beina leið upp en það er ljóst að Selfoss fer í umspil um sæti í úrvalsdeild. Hvaða lið það verður sem Selfoss mætir ræðst á þriðjudaginn en það verður annað hvort Stjarnan eða Afturelding. Mosfellingar eru með sterkan heimavöll og væri gaman að sjá Selfyssinga fjölmenna í stúkuna og hvetja sína menn.
Markaskorun: Einar Sverrisson 6 mörk, Andri Hrafn, Atli Kristinsson og Hörður Másson 4 mörk hver, Andri Már og Atli Hjörvar 3 mörk hvor, Jóhannes Snær og Gunnar Ingi voru með 2 mörk og Jóhann Erlings með eitt mark skorað.
Sverrir Andrésson stóð í marki Selfoss.
Mynd: Einar Sverrisson var markahæsti maður liðsins á móti Fjölni.