Frjálsíþróttaskóli aldrei verið fjölmennari

Frjálsíþróttaskóli
Frjálsíþróttaskóli

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ var haldinn í sjöunda skipti á Selfossi dagana 28. júní til 2. júlí. Alls voru 59 frískir krakkar á aldrinum 11 til 14 ára sem kláruðu skólann. Skólinn var sá fjölmennasti frá upphafi af öllum stöðum sem hann hefur verið haldinn. Skólinn fór fram við frábærar aðstæður á Selfossvelli þar sem stutt er í alla aðstöðu sem nota þarf, til að mynda gistiaðstöðu, frjálsíþróttavöll og sundlaug. Frjálsíþróttaskólinn er haldinn út um allt land, í ár er hann haldinn á fimm mismunandi stöðum.

Skólinn á Selfossi heppnaðist mjög vel þrátt fyrir fjöldann. Krakkarnir voru mjög ánægðir og eru strax farin að hlakka til að koma aftur á næsta ári. Krakkarnir komu nær öll frá Suðurlandi og voru flest til að mynda í sigurliði HSK/Selfoss á Íslandsmeistaramótinu sem fór fram helgina fyrir skólann, en einnig voru nokkur börn frá öðrum félögum þó þau hafi verið færri en undanfarin ár.

Markmið skólans er að kynna og breiða út frjálsíþróttum á Íslandi. Dagskrá skólans var mjög fjölbreytt þar sem til að mynda voru kvöldvökur á hverju kvöldi ásamt fjölbreytt hreyfing allt frá hefbundnum frjálsíþróttaæfingum, til sundsprells og ratleiks. Alls voru 13 þjálfarar og aðstoðarmenn hjálpuðu til í skólanum enda að mörgu að huga að svo sem matartímum, frítímum, æfingum og öðrum dagskrárliðum. Skólinn fór fram við frábærar aðstæður þar sem stutt er í alla aðstöðu sem nota þarf, til að mynda gistiaðstöðuna, frjálsíþróttavöll og sundlaugina.

Skólinn gegnir mikilvægu hlutverki í að opna augu ungmenna fyrir ágæti íþróttaiðkunar og styðja fjölmargar rannsóknir þá fullyrðingu að ungmenni sem stunda íþróttir leiðast síður út í óreglu síðar á lífsleiðinni. Síðast en ekki síst öðlast ungmennin tækifæri til að kynnast hvert öðru og mynda tengslanet og auka hæfni sína í mannlegum samskiptum.

Skólanum lauk með velheppnuðu frjálsíþróttamóti á fimmtudeginum. Eftir grillveislu fengu krakkarnir viðurkenningaskjöl fyrir þáttöku í skólanum.

Við viljum þakka öllum þeim fjölda fyrirtækja sem lögðu skólanum og þátttakendum lið, sá stuðningur er ómetanlegur, en þau voru: MS, Nettó, Sölufélag Garðyrkjubænda, Myllan, Hafnarnes Ver, Almarsbakarí, Guðnabakarí, Kjötvinnslan Krás, Bónus, Kökugerð HP, Selfossbíó, Tiger, Kjörís, Nathan & Olsen, Dominos, Rúmfatalagerinn og SS.

Takk fyrir okkur,
Ágústa og Fjóla Signý
Yfirumsjónarmenn Frjálsíþróttaskólans á HSK-svæðinu

---

Hæstánægður hópur í frjálsíþróttaskóla UMFÍ á Selfossi.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/Fjóla Signý

Hópurinn á vellinum sundlaug Selfossbíó viðbragð