Fyrsti bikarmeistaratitill Selfyssinga

Blandað lið
Blandað lið

Blandað lið Selfyssinga gerði sér lítið fyrir og sigraði Bikarmótið í hópfimleikum sem fram fór á Selfossi sunnudaginn 15. mars. Þetta er fyrsti bikarmeistaratitill Selfyssinga í meistaraflokki en liðið hefur áður hampað Íslandsmeistaratitlum á tveimur áhöldum á síðasta keppnistímabili. Raunar er þetta fyrsti meistaratitill Selfyssinga í liðakeppni í meistaraflokki í nærri 80 ára sögu félagsins.

 

Liðið hafði nokkra yfirburði og hafði greinilega breytt um taktík frá síðasta móti þegar þau misstu naumlega af fyrsta sætinu. Liðið mætti fullt af sjálfsöryggi og sýndu æfingar sínar á öllum áhöldum með miklum tilþrifum og glæsileika. Þau bættu sig um rétt tæp fjögur stig á milli móta sem telst mjög mikil bæting en samtals hlaut liðið 52,150 stig en blandað lið Stjörnunnar hlaut 47,500 stig. Lið Ármenninga lenti í þriðja sæti með 47,150 stig.

Kvennalið Selfoss mætti einnig vel undirbúið til leiks og sýndu miklar bætingar á öllum áhöldum frá síðasta móti en mest þó á trampólíninu þar sem þær bættu sig um rúm þrjú stig. Þær mættu vel stemmdar, sýndu mikla leikgleði, voru sannfærandi og uppskáru eftir því. Þær enduðu í þriðja sæti á eftir liðum Stjörnunnar og Gerplu.

Nú tekur við stífur undirbúningur hjá liðunum fyrir Íslandsmótið í hópfimleikum sem fram fer í Ásgarði í Garðabæ föstudaginn 17. apríl en þau stefna á enn meiri bætingar á því móti.

Kvennalið