Jólasýning 2014 - vefur (10)
Knattspyrnukonan Guðmunda Brynja Óladóttir og taekwondomaðurinn Daníel Jens Pétursson, bæði úr Umf. Selfoss, eru íþróttakona og íþróttakarl Sveitarfélagsins Árborgar árið 2014.
Uppskeruhátíð Íþrótta- og menningarnefndar Árborgar var haldin í hátíðarsal Fjölbrautaskóla Suðurlands þriðjudagskvöldið 30. desember og var greint frá verðlaunahöfum og veitingu viðurkenninga í frétt á vef Sunnlenska.is.
Þar voru Íslands-, deildar-, bikar- og Norðurlandameistarar úr sveitarfélaginu heiðraðir sérstaklega en íþróttamenn úr Árborg unnu yfir fimmtíu titla á árinu, bæði í liða og einstaklingsgreinum. Sveitarfélagið eignaðist tvo Norðurlandameistara á árinu og íþróttamenn úr Árborg komust fimm sinnum til viðbótar á pall á Norðurlanda- eða Evrópumeistaramótum.
Hestamannafélagið Sleipnir fékk hvatningarverðlaun ÍMÁ en félagið er 85 ára í ár. Félagsstarf Sleipnis hefur eflst mikið á síðustu árum og félagafjöldinn tvöfaldast en hann er nú á sjötta hundrað félagsmanna. Einnig er æskulýðsstarf félagsins sérstaklega öflugt.
Einnig voru veittir styrkir úr afreks- og styrktarsjóðum íþróttafélaganna og sveitarfélagsins.
Hápunktur kvöldsins var útnefning íþróttafólks ársins en 38 aðilar, bæjarfulltrúar, forystufólk í íþróttahreyfingunni og fjölmiðlamenn kusu úr hópi tilnefndra íþróttamanna.
Guðmunda Brynja fékk 185 stig í kjörinu, handboltakonan Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Umf. Selfoss, 174 stig og fimleikakonan Eva Grímsdóttir, Umf. Selfoss, 140 stig.
Hjá körlunum sigraði Daníel Jens með 199 stig, annar varð fimleikamaðurinn Konráð Oddgeir Jóhannsson, Umf. Selfoss, með 142 stig og þriðji júdómaðurinn Þór Davíðsson, Umf. Selfoss, með 126 stig.
Guðmunda Brynja er fyrirliði kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu sem varð í 4. sæti Pepsi-deildarinnar í sumar og komst í úrslit í bikarkeppni KSÍ. Hún er orðin fastamaður í A-landsliðinu og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark á árinu.
Daníel Jens kom til baka eftir erfið meiðsli og varð Norðurlandameistari í taekwondo í sínum þyngdarflokki auk þess sem honum gekk vel á mótum á erlendri grundu. Hann varð einnig Íslandsmeistari í sínum þyngdarflokki með miklum yfirburðum.
Auk þeirra voru tilnefnd þau Alexandra Eir Grétarsdóttir, golf, Elmar Darri Vilhelmsson, motocross, Erlendur Ágúst Stefánsson, körfuknattleikur, Eva Grímsdóttir, fimleikar, Guðmundur Ásbjörnsson, boccia o.fl., Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir, frjálsar íþróttir, Gyða Dögg Heiðarsdóttir, motocross, Haukur Baldvinsson, hestaíþróttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, handbolti, Hlynur Geir Hjartarson, golf, Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, taekwondo, Ívar Guðmundsson, akstursíþróttir, Kári Valgeirsson, sund, Konráð Oddgeir Jóhannsson, fimleikar, Nína Jenný Kristjánsdóttir, körfuknattleikur, Olil Amble, hestaíþróttir, Ólafur Guðmundsson, frjálsar íþróttir, Ólöf Eir Hoffritz, sund, Sverrir Pálsson, handknattleikur, Thelma Björk Einarsdóttir, frjálsar íþróttir, Tómas Kjartansson, knattspyrna, Vanda Jónasardóttir, fimleikar, Þorsteinn Daníel Þorsteinsson, knattspyrna, Þór Davíðsson, júdó og Þórdís Mjöll Böðvarsdóttir, júdó.
---
Guðmunda Brynja og Daníel Jens íþróttafólk Árborgar 2014 með verðlaunagripi sína.
Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl