Haukur Þrastarson
U-18 ára landslið karla sigraði Sparkassen Cup í Þýskalandi sem fram fór nú á milli jóla og nýárs. Selfoss átti sinn fulltrúa í liðinu, Hauk Þrastarson, en hann stóð sig með mikilli prýði bæði í vörn og sókn og var næstmarkahæstur íslenska liðsins með 31 mark.
Liðið mætti úrvalsliði Saar, Póllandi og Hollandi í riðlakeppninni og unnust allir þeir leikir örugglega. Liðið mætti síðan Ítölum í undanúrslitum og unnu góðan 16 marka sigur, 33-17 og þar með komnir í úrslitaleikinn sem var gegn heimamönnum í Þýskalandi.
Úrslitaleikurinn var æsispennandi. Þjóðverjar leiddu með einu marki í hálfleik, 10-11 og komust svo þremur mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiks, 12-15. Ísland jafnaði metin í 15-15 og komst skömmu síðar yfir, 20-17. Lokakamínúturnar voru dramatískar þar sem Þjóðverjar minnkuðu muninn í 21-20 og Ísland missti tvo af velli. Þjóðverjar fengu vítakast undir lokin sem þeir náðu ekki að nýta sér og eins marks sigur Íslands staðreynd, 21-20.
Þetta er fyrsti sigur Íslands á Sparkassen Cup, en landslið Íslands hafa tekið þátt í mótinu síðan 1995 eða í rúm 20 ár.
Við óskum Hauki og félögum í landsliðinu að sjálfsögðu til hamingju með sigurinn.
Úrslit leikja íslenska liðsins
Ísland 31-24 Saar
Ísland 31-24 Pólland
Ísland 31-25 Holland
Ísland 33-17 Ítalía (Undanúrslit)
Ísland 21-20 Þýskaland (Úrslit)
Nánar á vefsíðu HSÍ
________________________________________
Mynd: Haukur Þrastarson stóð sig vel á Sparkassen Cup.