bikarlið 15 og yngri
Sunnudaginn 25. ágúst var bikarkeppni 15 ára og yngri í frjálsum haldin í Kópavogi. Tólf lið af öllu landinu voru skráð til leiks og var keppnin gríðarlega jöfn og spennandi. Einungis einn úr hverju félagi keppir í hverri grein og hver einstaklingur má aðeins keppa í tveimur greinum. Allir keppendur fá stig, 12 fyrir 1. sæti og niður í eitt stig og því aldrei eins mikilvægt að allir klári sína grein.
Piltarnir gerðu sér lítið fyrir og urðu bikarmeistarar með 105 stig en næsta lið var með 98,5 stig. Hjá strákunum vann Fannar Yngvi Rafnarson (15 ára) báðar sínar greinar, 400 m hlaup á 54,12 sek, sem er HSK met og hástökk með 1,73 m. Sveinbjörn Jóhannesson (15 ára) sigraði einnig sínar greinar, kúluvarp með 14,61 m og kringlukast með 45,59 m. Styrmir Dan Hansen Steinunnarson (14 ára) sigraði í langstökki með 5,98 m og varð þriðji í 100 m grind á 15,37 sek. Selfyssingurinn Teitur Örn Einarsson (15 ára) varð annar í spjótkasti með 46,80 m og piltarnir urðu í þriðja sæti í 1000 m boðhlaupi á 2:19,12 mín sem er HSK met.
Stúlkurnar enduðu í 7. sæti með 66,5 stig en aðeins munaði 3,5 stigum á þeim og liðinu í 4. sæti. Liðið okkar er eingöngu skipað 12 og 14 ára stúlkum og er því mjög ungt og kemur tvíeflt og reynslunni ríkara á næstu bikarkeppni. Hjá stúlkunum sigraði Selfyssingurinn Halla María Magnúsdóttir (14 ára) 100 m hlaupið á 13,47 sek og hún varð þriðja í kúluvarpi með 10,82 m. Allar hinar stelpurnar stóðu sig eins og til var ætlast þótt ekki kæmust þær á meðal þriggja efstu í sínum greinum en voru oft í 4.-7. sæti.
Í heildarstigakeppninni endaði HSK í 3. sæti með 171,5 stig, 4,5 stigum á eftir Breiðablik en FH-ingar urðu Bikarmeistarar með 188 stig. Frábær árangur hjá krökkunum og verður spennandi að fylgjast með þeim í framtíðinni.