Knattspyrna - Íris Sverrisdóttir GKS
Miðjumaðurinn Íris Sverrisdóttir hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Selfoss fyrir komandi keppnistímabil í Pepsi-deildinni.
Íris, sem er 24 ára gömul, er reynslumikill leikmaður en hún hefur leikið yfir 120 leiki með meistaraflokki Selfoss allt frá því að hann var endurvakinn árið 2009.
Hún átti frábært tímabil í 1. deildinni á síðasta keppnistímabili, þegar liðið endurheimti sæti sitt í deild þeirra bestu. Á lokahófi knattspyrnudeildarinnar fékk hún Guðjónsbikarinn fyrir mikilvægt framlag til félagsins og jákvæðni innan vallar sem utan.
„Íris er mikilvægur hlekkur í okkar liði, búin að vera öll þessi ár í meistaraflokknum. Hún er mikill dugnaðarforkur og er tilbúin að leggja mikið á sig þannig að hún er góð fyrirmynd fyrir yngri leikmenn. Það er frábært að hún ætli að taka slaginn áfram enda er hún mikilvæg fyrir okkur bæði innan og utan vallar,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss.
Á myndinni eru Íris og Svava Svavarsdóttir, stjórnarkona, við undirritun samningsins í félagsheimilinu Tíbrá.