Katla(til vinstri) og Íris (til hægri) við Selfossmerkið
Tvíburasysturnar Íris Una og Katla María Þórðardætur skrifuðu í kvöld undir tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss.
Þær koma til Selfoss frá Fylki þar sem þær hafa spilað undanfarin tvö keppnistímabil og áður léku systurnar, sem eru frá Sandgerði, með Keflavík í úrvalsdeildinni og 1. deildinni. Báðar hafa þær leikið 45 leiki í efstu deild. Þá hafa þær báðar leikið með yngri landsliðum Íslands undanfarin ár, Katla á 38 landsleiki að baki og Íris 25 landsleiki.
„Íris og Katla eru ungir en þó nokkuð leikreyndir leikmenn sem hafa spilað upp öll yngri landsliðin. Þær eru báðar mjög fastar fyrir og ósérhlífnar. Fyrir utan það eru þær að mörgu leyti ólíkir leikmenn, Katla er mjög róleg á boltanum og mun hjálpa okkur að vernda boltann miðsvæðis á meðan Íris með mjög góðar spyrnur, bæði með hægri og vinstri sem gefur okkur möguleika á nota hana beggja vegna í varnarlínunni og eiga möguleika á að leita bæði inn í völlinn með bakvarðarspili og út í kantinn,“ segir Björn Sigurbjörnsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss.
„Fyrir utan það að vera góðar í fótbolta og styrkja hópinn okkar með fótboltalegum gæðum þá eru þær alveg frábærir karakterar sem munu leggja sig allar í að hjálpa liðinu að stíga þau skref sem við ætlum okkur í ár.“