15 ára piltar unnu stigabikarinn í 15 ára flokki með miklum yfirburðum
Lið HSK/Selfoss varð Íslandsmeistari á unglingameistaramóti Íslands sem haldið var í Kaplakrika 28.-29.janúar sl. Lið HSK/Selfoss sýndi mikla yfirburði á mótinu en liðsfélagar HSK/Selfoss höluðu alls inn 390,5 stigum á mótinu. Lið HSK/Selfoss sigraði í fjórum aldursflokkum. Piltar 15 ára og piltar 16-17 ára sigruðu sína flokka auk þess sem stúlkur 15 ára og stúlkur 16-17 ára unnu einnig sína flokka. Piltar 18-19 ára enduðu í 2.sæti. Hér fyrir neðan má sjá einstakan árangur hjá keppendum UMF. Selfoss sem stóðu sig frábærlega og náðu mörgum Íslandsmeistaratitlum en þeirra fremstur var Hjálmar Vilhelm sem varð sexfaldur Íslandsmeistari.
15 ára piltar- Hjálmar Vilhelm Rúnarsson náði þeim frábæra árangri að verða sexfaldur Íslandsmeistari. Hann sigraði í kúluvarpi með kasti upp á 14,64m, 300m hlaup hljóp hann á tímanum 40,06 sek, í hástökki vippaði hann sér yfir 1,75m , í þrístökkinu sveif hann 12,08m og vippaði sér yfir 2,50m í stangarstökki auk þess sem hann varð Íslandsmeistari í 4x200m boðhlaupi. Hann krækti sér einnig í silfurverðlaun fyrir 60m hlaup, 60m grindahlaup og langstökk. Vésteinn Loftsson varð Íslandsmeistari í 4x200m boðhlaupi auk þess að vinna til bronsverðlauna í langstökki og kúluvarpi.
15 ára stúlkur -Arna Hrönn Grétarsdóttir varð þrefaldur Íslandsmeistari. Hún sigraði í hástökki með 1.45m, í stangarstökki vippaði hún sér yfir 1,65m og hún sigraði ásamt stöllum sínum í HSK/ Selfoss í 4x200m boðhlaupi. Hugrún Birna Hjaltadóttir varð tvöfaldur Íslandsmeistari. Hún sigraði bæði í 300m hlaupi á tímanum 43,87s og í 4x200m boðhlaupi. Hún vann einnig til silfurverðlauna í þrístökki, 800m hlaupi og langstökki og að lokum vann hún bronsverðlaun í 60m grindahlaupi. Sara Mist Sigurðardóttir varð Íslandsmeistari í 4x200m boðhlaupi og hún krækti sér einnig í silfurverðlaun í stangarstökki og 2000m hlaupi.
16- 17 ára piltar- Daníel Breki Elvarsson varð þrefaldur Íslandsmeistari. Hann sigraði í langstökki með því að svífa 6,21m, í hástökkinu vippaði hann sér yfir 1,67m og hann var í sigursveit HSK/Selfoss í 4x200m boðhlaupi. Þorvaldur Gauti Hafsteinsson varð tvöfaldur Íslandsmeistari. Hann sigraði í 800m hlaupi á tímanum 2:03,08m og var í sigursveit HSK/Selfoss í 4x200m boðhlaupi. Oliver Jan Tomczyk varð Íslandsmeistari í 4x200m boðhlaupi og hlaut að auki silfurverðlaun í langstökki og bronsverðlaun í kúluvarpi. Máni Arnórsson varð Íslandsmeistari í 4x200m boðhlaupi og Baltasar Breki Matthíasson vann til bronsverðlauna í stangarstökki.
16 – 17 ára stúlkur – Eydís Arna Birgisdóttir varð Íslandsmeistari í 400m hlaupi á tímanum 62,34m. Hún vann einnig til silfurverðlauna í þrístökki, 200m hlaupi og 4x200m boðhlaupi. Þórhildur Lilja Hafsteinsdóttir varð Íslandsmeistari í 800m hlaupi á tímanum 2:35,74m og hún vann til silfurverðlauna í 400m hlaupi, 3000m hlaupi og 4x200m boðhlaupi. Ísold Assa Guðmundsdóttir varð Íslandsmeistari í þrístökki með því að svífa 10,29m, hún krækti sér í silfurverðlaun í 4x200m boðhlaupi og vann að lokum til bronsverðlauna í stangarstökki. Hjördís Katla Jónasardóttir varð Íslandsmeistari í 3000m hlaupi á tímanum 17:52,33m og Lilja Björk Sæland vann til silfurverðlauna í 4x200m boðhlaupi.
18-19 ára stúlkur- Rebekka Georgsdóttir stökk til silfurverðlauna í þrístökki ásamt því að fá bronsverðlaun í 4x200m boðhlaupi. Þær Þórhildur Arnardóttir, Erlín Katla Hansdóttir og Hanna Dóra Höskuldsdóttir unnu allar til bronsverðlauna í 4x200m boðhlaupi.