IMG_0112
Íslandsmót unglinga í hópfimleikum fer fram í Ásgarði í Garðabæ um helgina. Alls eru 52 lið skráð til keppni frá tíu félögum af öllu landinu. Selfoss er með 11 lið skráð til keppni í fjórum mismunandi flokkum en þeir eru aldurs- og kynjaskiptir. Keppt er í flokki 9-10 ára, 11-12 ára, 13-15 ára og 15-17 ára sem og 15 ára og eldri flokk sem kallast opinn flokkur. Selfoss sendir tvö karlalið og níu kvennalið. Hart verður barist í mörgum flokkum og verður gaman að fylgjast með okkar fólki sem hefur æft stíft í vetur fyrir mótið. Foreldrafélag fimleikadeildarinnar í samstarfi við stjórn hafa látið útbúa Selfossflögg til að lita stúkuna vínrauða um helgina og ná góðri stemmingu. Fánarnir verða til sölu í stúkunni hjá foreldrum/stjórn á krónur 1200. Við hvetjum foreldra, vini og aðra velunnara fimleika að kíkja í Ásgarðinn en þar mun allt verða í fullu fjöri.