Frjálsar MÍ (4)
Meistaramót Íslands var haldið á Kópavogsvelli helgina 25.-26. júlí og sendi HSK/Selfoss ellefu keppendur til leiks sem stóðu sig með miklum ágætum. Afrakstur helgarinnar var tvö gull, fjögur silfur og fjögur brons.
Millivegalengdahlauparar HSK/Selfoss í karlaflokki voru sterkir og unnu til tveggja gullverðlauna. Kristinn Þór Kristinsson Samhygð sigraði 800 m hlaupið með yfirburðum á 1:53,03 mín. og varð þriðji í 400 m hlaupi á 50,42 sek. sem er hans besta utanhúss. Gamla kempan Sigurbjörn Árni Arngrímsson Laugdælum gerði sér lítið fyrir og kom fyrstur í mark í 1500 m hlaupinu á 4:10,36 mín. Í 3000 m hindrunarhlaupi átti HSK/Selfoss tvo keppendur. Þorsteinn Magnússon Dímoni varð annar á 11:17,09 mín. og Ástþór Jón Tryggason Selfossi þriðji í sínu fyrsta hlaupi á ferlinum, 11:26, 91 mín. Í 5000 m hlaupinu endurtók Ástþór leikinn, varð þriðji á bætingu, 18:31,58 mín.
Í kvennaflokki stóðu HSK/Selfoss keppendur fyrir sínu. Fjóla Signý Hannesdóttir Selfossi var að vanda atkvæðamikil. Hún tók silfur í 100 m grind á sínum ársbesta árangri, 15,17 sek., endurtók leikinn í langstökki með 5,30 m og varð þriðja í 400 m grindahlaupi á 64,39 mín. Fjóla varð að sleppa hástökki vegna meiðsla en þar átti hún góða möguleika á sigri. Í þrístökki kvenna hreppti Harpa Svansdóttir silfurverðlaun með persónulegri bætingu, stökk 10,58 m. Thelma Björk Einarsdóttir Selfossi bætti sinn besta árangur í sleggjukasti er hún rauf í fyrsta sinn 40 m múrinn með kasti upp á 40,09 m og í kringlukasti þar sem hún jafnaði Selfossmetið með 37,29 m kasti sem nægði í fjórða sætið.
óg
---
Fyrir ofan: Fjóla Signý var atkvæðamikil að vanda.
Fyrir neðan: Sigurbjörn Árni kom fyrstur í mark í 1500 metra hlaupi.
Fyrir neðan: Ástþór Jón og Þorsteinn að loknu 3000 metra hlaupi.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/Ólafur