Landsbankinn áfram einn af aðalstyrktaraðilum Brúarhlaupsins

Brúarhlaup Landsbankinn styrktaraðili
Brúarhlaup Landsbankinn styrktaraðili

Landbankinn á Selfossi og Frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss hafa endurnýjað samstarfssamning sinn og gildir hann til næstu þriggja ára. Með honum verður Landsbankinn áfram einn af aðalstyrkaraðilum Brúarhlaups Selfoss.

Brúarhlaup Selfoss var fyrst hlaupið á 100 ára afmæli Ölfusárbrúar við Selfoss árið 1991. Upp kom sú upp hugmynd hjá forráðamönnum Frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss að minnast afmælisins með því að standa fyrir almenningshlaupi á Selfossi og fékk hlaupið nafnið Brúarhlaup Selfoss. Allar götur síðan hefur Frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss staðið fyrir hlaupinu ár hvert. Með vísan í nafn hlaupsins hefur hlaupið ávallt verið ræst á brúnni sjálfri.

Í ár verður hlaupið haldið í 25. sinn og fer það fram laugardaginn 8. ágúst nk. Þátttaka í hlaupinu hefur ávallt verið mikil og keppendur á bilinu 700–1.000 manns. Á síðasta ári var dagsetningu hlaupsins og hlaupaleiðum breytt og fer það nú fram annað árið í röð á sama tíma og Sumar á Selfossi og Olísmótið í knattspyrnu. Mikil ánægja var með breytingarnar fyrir ári síðan og skapaðist mikil stemning á Selfossi í tengslum við hlaupið.

Hlaupavegalengdir í ár eru 10 km,  5 km og 2,8 km, auk Sprotahlaupsins. Einnig fer fram keppni í 5 km hjólreiðum sem eru fyrst og fremst skemmtihjólreiðar þar sem ekki er um að ræða hraða keppnisbraut. Allar hlaupaleiðir eru löggildar og mældar upp af viðurkenndum aðila. Tímataka er í öllum vegalengdum (flögur í 5 km og 10 km), bæði í hlaupum og hjólreiðum.

Nýtt í ár er Sprotahlaup Landsbankans, sem hugsað er fyrir yngstu hlauparana, 8 ára og yngri. Hlaupir verða um 800 metrar og fá allir þátttakendur bol og verðlaunapening að hlaupi loknu.

Landsbankinn og Frjálsíþróttadeildin hafa frá árinu 2007 átt ánægjulegt samstarf sem hefur verið báðum aðilum til gagns. Með endurnýjun samningsins vill Landsbankinn sýna í verki áhuga sinn og stuðning við æskulýðs- og íþróttamál og um leið leggja áherslu á forvarnarþátt þess starfs.

---

Frá undirritun samstarfssamningsins. Frá vinstri: Ágústa Þ. Sigurðardóttir, sérfræðingur í einstaklingsviðskiptum, Gunnlaugur Sveinsson útibússtjóri á Selfossi, Helgi S. Haraldsson, formaður frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss og Þuríður Ingvarsdóttir í stjórn Umf. Selfoss.
Ljósmynd: DFS.is/Örn Guðnason.