Byrjunarlið Selfoss gegn ÍBV 2019
Kvennalið Selfoss vann góðan 1-0 sigur á ÍBV í 9. umferð Pepsi Max deildarinnar á Hásteinsvelli í gærkvöldi.
Það er ekki hægt að segja að það hafi verið dúnalogn í Dalnum í gærkvöldi, vindurinn stóð á annað markið og Selfoss hafði rokið í fangið í fyrri hálfleik. Það kom ekki að sök, eftir nokkur hálffæri Eyjakvenna á upphafsmínútunum skoraði Barbára Sól eftir glæsilega sókn Selfyssinga.
Á tuttugu sekúndum barst boltinn frá Kelsey í markinu upp allan völlinn og í netið hinu megin. Frábær fótbolti hjá liðinu sem lauk með snilldarsendingu frá Grace inn á teiginn þar sem Barbára renndi sér í knöttinn og laumaði honum framhjá Guðnýju Geirsdóttur í marki ÍBV.
ÍBV efldist í kjölfarið en gekk illa að stýra boltanum með vindi. Þær komust þó nálægt því að skora á 27. mínútu þegar Sigríður Lára Garðarsdóttir átti skalla í þverslána eftir horn. Annars enduðu allir boltar frá heimaliðinu annað hvort úti á golfvelli eða þá í öruggum höndum Kelsey sem átti mjög góðan leik í markinu.
Á lokamínútu fyrri hálfleiks fékk Fríða gott færi eftir fast leikatriði en náði ekki að leggja boltann almennilega fyrir sig á fjærstönginni og Guðný varði.
Besta færi ÍBV kom í upphafi seinni hálfleiks þegar Emma Kelly slapp innfyrir en skaut framhjá úr prýðilegu færi. Annars ógnuðu Eyjakonur lítið í seinni hálfleik þó að þær hafi verið mikið með boltann. Helsta hættan var þegar Cloé Lacasse komst á ferðina með boltann en varnarlína Selfoss var vandanum vaxin.
Selfoss átti líka sínar sóknir. Á 62. mínútu átti Grace hörkuskot með vindinum sem Guðný var næstum því búin að missa innfyrir línuna og á 68. mínútu skallaði Barbára fyrirgjöf frá Mögdu í þverslána. Á lokakaflanum var lítið að frétta og ekki annað hægt að segja en að Selfoss hafi klárað leikinn af öryggi. Ó, hve ljúft það er að vera til.
Það er ekki hægt að fjalla um þennan leik án þess að minnast á stuðningsmenn Selfoss sem klöppuðu lófunum, stöppuðu fótunum og fögnuðu því að vera til. Selfyssingar fjölmenntu á eyjuna grænu og voru frábærir í stúkunni allan tímann, ekki síst á lokakaflanum þegar mest á reyndi.
Selfoss er nú í 4. sæti deildarinnar þegar Íslandsmótið er hálfnað, með 13 stig.
Lið Selfoss: Mark: Kelsey Wys. Vörn: Bergrós Ásgeirsdóttir, Brynja Valgeirsdóttir, Cassie Boren, Anna María Friðgeirsdóttir. Miðja: Barbára Sól Gísladóttir, Grace Rapp (Halla Helgadóttir 89.), Karítas Tómasdóttir, Þóra Jónsdóttir, Magdalena Anna Reimus (Unnur Dóra Bergsdóttir 81.). Sókn: Hólmfríður Magnúsdóttir. Ónotaðir varamenn: Dagný Pálsdóttir (M), Hrafnhildur Hauksdóttir, Anna María Bergþórsdóttir, Brynhildur Brá Gunnlaugsdóttir, Erna Guðjónsdóttir.
Viðtal við Alla á fotbolti.net
Skýrsla á fotbolti.net
Leiklýsing á mbl.is
Viðtal við Önnu Maríu á sunnlenska.is