Síminn (1)
Á þriðjudagskvöldið klukkan 19:30 tekur Selfoss á móti Val í 8-liða úrslitum Símabikars kvenna. Von er á að leikurinn verði gífurlega erfiður fyrir hið unga lið Selfoss gegn ríkjandi bikar-, deildar og Íslandsmeisturum Vals. Liðið hjá Val er stjörnum prýtt með landsliðskonur í hverri stöðu og mun það ekki hjálpa Selfossi. Hinsvegar er þetta bikarleikur og eins og oft hefur verið sannað er allt hægt í bikarnum. Sæti í undanúrslitum er undir. Það er þó líklegt að Valur verði án landsliðs línumannsins Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur, en þó er lið Vals það vel mannað að þær ættu að leysa það ágætlega. Liðin mættust fyrr í vetur í deildinni og þar vann Valur yfirburða sigur 12-28 þar sem staðan var 6-13 í hálfleik. Vonar heimasíðan að sem flestir Selfyssingar láti sjá sig á morgun og styðji stelpurnar, enda gífurlega mikilvægt í jafn erfiðum leik og þessum. Einnig er ekki á hverjum degi sem landsliðskonur Íslands mæta á Selfoss og spila.