Lliðsmynd Mix NM 2015
Selfoss keppir á Norðurlandamótinu í hópfimleikum sem fram fer í Vodafonehöllinni laugardaginn 14. nóvember. Þetta er stór dagur í sögu félagsins þar sem þetta er í fyrsta skipti sem lið Selfyssinga nær inn á Norðurlandamót í fullorðinsflokki en félagið hefur tvisvar sinnum áður keppt á Norðurlandamóti unglinga, árið 2008 í Bergen og 2014 í Garðabæ. Árin 2008 og 2010 keppti Selfoss í fullorðinsflokki á Evrópumóti.
Liðið er skipað heimamönnum að öllu leyti nema að einn liðsmaðurinn kemur frá Grænlandi. Þá eru allir keppendur liðsins annað hvort útskrifaðir úr Fimleikaakademíu FSu og Umf. Selfoss eða eru í henni núna í vetur.
Liðið hefur æft og keppt saman frá síðasta hausti og vann sér síðastliðið vor þátttökurétt á Norðurlandamótinu sem haldið er hér á Íslandi á laugardaginn. Liðið hóf undirbúning strax í júní með æfingabúðum í Danmörku. Þær voru afar vel heppnaðar og hafa iðkendur haldið ótrauðir áfram allt síðan þá. Þau nálgast markmið sín óðfluga og eru tilbúin til að sýna sitt besta og sjá hverju það skilar þeim á mótinu. Þeirra helstu keppinautar verða frá Danmörku og Noregi en blönduðu liðin frá þessum löndum hafa sýnt mikinn styrk undanfarin ár. Blandað lið Ollerup frá Danmörku sigraði 2013 og árið 2011 og má gera ráð fyrir þeim mjög sterkum er þau mæta aftur til leiks á laugardaginn.
Sýnt verður frá keppninni á RÚV og hefst útsending kl. 13 en þá verður sýnt frá karlakeppninni. Strax að henni lokinni verður sýnt frá keppni blandaðra liða þar sem Selfoss verður meðal keppenda og að lokum keppni í kvennaflokki þar sem lið Gerplu og Stjörnunnar eru meðal þátttakenda.
Miðasala á mótið er í fullum gangi á www.tix.is en stuðningur úr stúkunni skilar sér klárlega inn á gólf til keppenda og vonast lið Selfoss eftir að sjá vínrauða stúku á laugardaginn.