kastmót_selfvelli_4jún_2016 (3)
Laugardaginn 4. júní sl. fór innanfélagsmót Selfoss fram á Selfossvelli í góðu veðri Aðalgreinin var spjótkast karla þar sem allir helstu spjótkastarar landsins voru mættir til leiks. Þar á meðal voru kastarar sem reyndu við lágmörk inn á stórmót erlendis ásamt því að reyna við heimsmet.
Selfyssingurinn Örn Davíðsson. sem keppir fyrir FH, kastaði lengst allra 70,12 m og kastaði í fyrsta skipti yfir 70 m í þrjú ár. Annar varð Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR með 63,74 m en hann reynir við lágmark inn á HM unglinga 19 og yngri sem er 69 metrar. Þriðji varð Helgi Sveinsson, Ármanni með kast upp á 56,27 m sem er ekki langt frá hans besta og ekki langt frá heimsmetinu í hans fötlunarflokki.
Guðmundur Sverrisson, ÍR, sem á ættir að rekja á Selfoss, reyndi við lágmark fyrir EM fullorðinna í Hollandi sem er 79 m (á best rúma 80 m) en gerði því miður allt ógilt sem og Litháinn Maríus Simanavicius en hann á yfir 73 m.
Einnig var keppt í kúluvarpi karla þar sem Orri Davíðsson, Ármanni (bróðir Arnar) sigraði á bætingu, 15,17 m og kúluvarpi kvenna en þar hafði Thelma Björk Einarsdóttir, Selfossi best með 11,35 m. Í langstökki kvenna sigraði Harpa Svansdóttir, Selfossi með stökk upp á 4,96 m.
óg
---
Að ofan: Allir helstu kastarar landsins mættu til leiks í spjótkastið.
Að neðan: Vösk sveit kúluvarpara að lokinni keppni.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/Ólafur Guðmundsson