Á laugardag mættu Selfyssingar á Valbjarnarvöll í Laugardalnum og unnu frækinn 1-0 baráttusigur á Þrótturum. Það var Javier Zurbano sem skoraði markið eftir góðan sprett og sendingu Þorsteins Daníels Þorsteinssonar. Leikmenn Selfoss áttu heilt yfir góðan dag og héldu iðulega aftur af sóknaraðgerðum Þróttara með fyrirliðann Andy Pew fremstan í flokki.
Töluvert af Selfyssingum mætti á völlinn og studdi liðið með ráðum og dáð. Í samtali við Fótbolta.net kom fram að Gunnar Guðmundsson þjálfari var mjög sáttur við stuðninginn sem liðið fær. „Menn vita að við erum að byggja upp og það eru margir ungir strákar að taka sín fyrstu skref í deildinni. Þeir þurfa að finna að þeir eigi stuðning Selfyssinga og mér fannst þeir finna vel fyrir því í dag og ég er mjög sáttur við það. Þetta er það sem við þurfum og þá vonandi til lengri tíma litið getum við byggt upp sterkt og gott Selfosslið" sagði Gunnar.
Sigurinn fleytti Selfyssingum upp í 8. sæti deildarinnar með 24 stig. Næsti leikur er í fimmtudaginn 29. ágúst kl. 18:00 á heimavelli gegn toppliði Grindavíkur.
Á vef Fótbolta.net má finna umfjöllun um leikinn og viðtal við Gunnar.