Knattspyrna - Barbára Sól Gísladóttir GKS
Selfoss mætir HK/Víkingi í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna í knattspyrnu en dregið var í dag. Selfoss sló Stjörnuna úr keppni í 16-liða úrslitunum síðastliðinn laugardag.
Selfoss heimsótti Stjörnuna á gervigrasið í Garðabæ í hörkuleik þar sem úrslitin réðust í framlengingu.
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn en fátt markvert gerðist fyrr en á 19. mínútu þegar Barbára fékk boltann frá Fríðu á hægri kantinum. Barbára óð með boltann inn í vítateiginn þar sem Grace tók við honum hægra megin og skoraði með hnitmiðuðu skoti í fjærhornið.
Forskotið hélt þó aðeins í þrjár mínútur því á 22. mínútu skoraði Jana Sól Valdimarsdóttir með óverjandi skot frá vítateigshorninu vinstra megin í þverslána og inn.
Staðan var 1-1 í leikhléi og seinni hálfleikurinn var markalaus þrátt fyrir ágætar tilraunir beggja liða. Selfoss var heilt yfir sterkari aðilinn og áttu bæði Grace og Fríða til dæmis skot og skalla í tréverkið. Það var síðan á fyrstu mínútu uppbótartíma að Barbára átti góða sendingu fyrir markið frá vinstri, Eva Lind náði góðum skalla en Stjörnukonur björguðu á línu. Frákastið datt hins vegar fyrir Grace sem skoraði auðveldlega.
Björninn var ekki unninn með þessu því Stjörnukonur náðu strax að svara fyrir sig en Selfossvörnin svaf í næstu sókn þeirra bláu og Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir skoraði með skalla rétt áður en dómarinn flautaði leikinn af og jafnaði 2-2.
Framlengja þurfti leikinn og þar var Barbára Sól ekkert að tvínóna við hlutina. Hún ætlaði sér að ná í sigurinn og gerði það strax í upphafi framlengingarinnar. Þóra renndi þá boltanum á Barbáru inni í vítateignum, hún lagði boltann vel fyrir sig og smurði honum upp í samskeytin fjær. Selfoss var sterkari aðilinn í framlengingunni en smátt og smátt fjaraði leikurinn út og Stjörnukonur fundu engar leiðir í gengum Selfossvörnina. Lokatölur 2-3.
Sem fyrr segir var dregið í 8-liða úrslitin í dag og þar fáum við HK/Víking í heimsókn en leikurinn fer fram laugardaginn 29. júní.