Selfoss merki
Selfyssingar mættu FH í 4. flokki Eldri (97) í gær. FH er eina liðið sem hefur unnið Selfoss í vetur og strákarnir voru greinilega staðráðnir í að svara fyrir það. Eftir jafnræði fyrstu 30-35 mínútur leiksins stungu Selfyssingar gestina í FH af og sigruðu 31-23.
Liðin voru nokkuð jöfn upp í 4-5. Tóku okkar menn þá rispu og fóru í 10-7 og leiddu einnig 12-9. Undir lok hálfleiksins voru Selfyssingar klaufar, þeir nýttu ekki tækifæri sín og náði FH að minnka muninn í 12-11 en þannig var staðan í hálfleik. Í seinni hálfleik var jafnt upp í 16-16. Næstu fimmtán mínútur kom frábær kafli Selfyssinga þar sem liðið gerði 13 mörk gegn 4 frá FH og staðan orðin 29-20. Lokatölur urðu sem áður segir 31-23 sigur Selfoss.
Selfyssingar léku mjög vel í leiknum, sér í lagi í síðari hálfleik þar sem liðið kláraði leikinn. Sóknin var frábær og var Selfoss með frábærar lausnir gegn öllu því sem FH reyndi. Varnarleikurinn var á köflum góður og menn að leggja sig alla fram í vörninni. Þar spilaði Selfoss mjög framarlega en fjölmargar brottvísanir sem liðið fékk gerði það að verkum að liðið náði ekki að slíta sig frá FH-ingum fyrr en í síðari hálfleik. Það má í raun segja að þolinmæðin og aginn við að halda skipulaginu allan tímann hafi gert útslagið að þessu sinni í bland við mjög góðan liðsanda þar sem menn skemmtu sér vel.