Handbolti Steinunn Hansdóttir
Kvennalið Selfoss hefur fengið góðan liðsstyrk fyrir komandi átök í Olís-deild kvenna í handknattleik því landsliðskonan Steinunn Hansdóttir hefur samið við félagið.
Steinunn gekk í raðir SønderjyskE frá Skandeborg síðasta sumar. Hún hefur hins vegar fengið lítinn spiltíma með liðinu og vill fá fleiri mínútur til þess að festa sig í sessi hjá A-landsliðinu. Næstu leikir landsliðsins eru í undankeppni EM í mars en Steinunn hefur spilað þrettán A-landsleiki og skorað í þeim nítján mörk.
„Ég var ekkert að fá mikið að spila í SønderjyskE þannig að ég tók þessa ákvörðun og fæ kannski að spila aðeins meira hérna á Selfossi. Þetta er í fyrsta sinn sem ég spila fyrir íslenskt lið, ég hef ekkert fylgst með íslensku deildinni en ég er bara mjög spennt fyrir að spila á Íslandi og sjá hvernig deildin er,“ sagði Steinunn í samtali við Sunnlenska.is. „Mér líst vel á hópinn og umhverfið hérna á Selfossi þó að ég þekki ekki aðra leikmenn en Hrafnhildi Hönnu, úr landsliðinu.“
Steinunn spilar stöðu vinstri hornamanns og segir að það sé hörkusamkeppni um þá stöðu í landsliðinu. „Næstu landsliðsverkefni eru í mars og það kemur bara í ljós hvort ég verð valin. Það er mikil samkeppni í minni stöðu og ég þarf að fá að spila til þess að eiga möguleika á sæti í liðinu.“
Steinunn er 21 árs gömul, ættuð frá Selfossi en hefur búið í Danmörku frá fjögurra ára aldri. Foreldrar hennar eru Hans Jörgen Einarsson og Guðbjörg Steinsdóttir.
Keppni í Olísdeildinni hefst aftur á laugardaginn, eftir jólafrí en þá tekur Selfoss á móti Haukum í Vallaskóla.
---
Steinunn handsalar félagaskiptin við Lúðvík Ólason formann handknattleiksdeildar.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Þorsteinn Rúnar Ásgeirsson