Handbolti - Stelpurnar fagna
Kvennalið Selfoss vann öruggan sigur á botnliði Fylkis þegar liðin mættust í lokaumferð Olís-deildar kvenna á Selfossi á laugardag.
Selfoss hafði undirtökin í fyrri hálfleik og leiddu 12-11 í hálfleik. Stelpurnar okkar unnu að lokum öruggan sex marka sigur, 29-23.
Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.
Dijana Radojevic var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir og Adina Ghidoarca skoruðu báðar 5, Kristrún Steinþórsdóttir 4 og þær Ída Bjarklind Magnúsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu báðar 3 mörk.
Selfoss varð í 7. sæti deildarinnar með 12 stig og framundan er umspil um sæti í Olís-deildinni á næsta ári. Stelpurnar glíma fyrst við lið HK sem lenti í fjórða sæti 1. deildar. Vinna þarf tvo leiki í einvíginu og er spilað heima og heiman. Selfoss á fyrsta leik á heimavelli sem og í þriðja leik ef á þarf að halda.
Það lið sem kemst áfram úr þessu einvígi spilar við sigurvegarann úr einvígi FH og KA/Þór um sæti í Olís-deild kvenna að ári.
Það er mikið í húfi fyrir bæði lið og mikilvægt að mæta af fullum krafti í þessa leiki. Stuðningsmenn okkar verða mikilvægir nú sem ávallt og því viljum við hvetja alla til að koma og styðja stelpurnar til sigurs.
Fyrsti leikur er á Selfossi fimmtudaginn 20. apríl kl. 19:30. Annar leikur liðanna fer fram í Digranesi sunnudaginn 23. apríl kl. 14:00 og ef á þarf að halda fer þriðji leikur liðanna fram á Selfossi miðikudaginn 26. apríl kl. 19:30.
---
Stelpurnar okkar óska eftir góðum stuðningi áhorfenda gegn HK.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/JÁE