Elton Barros - vefur
Selfyssingar héldu vestur á Ísafjörð á laugardag þar sem þeir mættu gjörbreyttu liði BÍ/Bolungarvíkur í 1. deildinni. Liðin skiptu með sér stigum í leiknum eftir nokkrar sviptingar.
Það var Elton Renato Livramento Barros sem dró vagninn í annars jöfnu liði Selfyssinga en hann skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mínútu og útlitið bjart hjá okkar strákum. Vestanmenn jöfnuðu þó fyrir hálfleik og komust yfir í upphafi þess seinni. Það var svo fyrrnefndur Elton eða Fufura, eins og hann er oftast kallaður, sem tryggði okkar liði sanngjarnt stig þegar hann jafnaði leikinn á 87. mínútu. Kappinn hefur verið meira og minna meiddur í allt sumar en greinilegt er að endurkoma hans hefur góð áhrif á sóknarleik liðsins.
Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is.
Að loknum tólf umferðum er liðið í 9. sæti deildarinnar með 13 stig. Næsti leikur liðsins er fimmtudaginn 23. júlí kl. 19:15 á útivelli gegn HK.
---
Fufura stóð sig vel í sínum fyrsta leik eftir meiðsli.
Ljósmynd úr safni Umf. Selfoss.