Bikarúrslit Byrjunarliðið
Það var gríðarlega spenna á Suðurlandi á laugardag þegar Selfoss og Stjarnan mættust annað árið í röð í úrslitaleik Borgunarbikarsins á Laugardalsvelli.
Selfyssingar tóku daginn snemma og fjölmenntu á Hótel Selfoss þar sem boðið var upp á fjölskylduhátíð auk þess sem Suðurland FM útvarpaði stemningunni og lýsti leiknum. Guðmundur Tyrfingsson bauð upp á fríar sætaferðir á leikinn og fóru átta rútur frá Selfossi gagngert með stuðningsmenn á leikinn.
Stuðningsmenn Selfoss mættu snemma á völlinn og studdu stelpurnar frá því löngu fyrir leik. Áhorfendamet var slegið í leiknum en 2.435 áhorfendur komu á leikinn og hafa aldrei mætt fleiri á leik tveggja íslenskra kvennaliða en 2.011 áhorfendur mættu í fyrra sem þá var líka metaðsókn. Eins og nærri má geta var gríðarlega góð stemning í stúkunni þar sem áhorfendur beggja liða létu vel í sér heyra.
Stjarnan átti titil að verja eftir 4-0 sigur á Selfyssingum í fyrra. Það var ljóst strax frá fyrstu mínútu að það myndi ekki endurtaka sig þar sem Selfossstelpurnar mættu gríðarlega einbeittar til leiks og stjórnuðu leiknum á stórum köflum í fyrri hálfleik. Besta færi hálfleiksins fékk Heiðdís Sigurjónsdóttir þegar hún skallaði hornspyrnu Önnu Maríu Friðgeirsdóttur rétt yfir markið. Þrátt fyrir nokkur góð færi var staðan markalaus í hálfleik.
Stjarnan komst betur inn í leikinn í síðari hálfleik og gengur sóknirnar á víxl. Ísinn var hins vegar brotinn á 62. mínútu þegar Donna Kay Henry skoraði glæsilegt mark eftir hárnákvæma sendingu frá Evu Lind Elíasdóttir og kom Selfyssingum yfir við gríðarlegan fögnuð hátt í tvö þúsund stuðningsmanna í stúkunni þar sem liðsmenn meistaraflokks karla hjá Selfoss og Árborg fóru fremstir í flokki.
Við tóku æsispennandi mínútur þar sem Selfyssingar vörðust fimlega og nokkrar snarpar sóknir sem skiluðu þó ekki marki. Meðal annars komst Magdalena Anna Reimus ein á móti markverði Stjörnunnar en skaut hárfínt framhjá. Þrátt fyrir að vera meira með boltann gekk Stjörnunni ekkert að skapa sér færi og því kom jöfnunarmark þeirra eftir hornspyrnu á 82. mínútu eins og þruma úr heiðskíru lofti. Stelpunum og stuðningsmönnum var brugðið við markið en börðust áfram staðráðin í að landa sigri í leiknum. Það gekk því miður ekki eftir og á 88. mínútu kom sigurmark Stjörnunnar eftir aðra hornspyrnu og mikið klafs í vítateig Selfyssinga.
Þrátt fyrir sorglegan endi var leikurinn hinn fjörugasti og fengu þeir sem mættu á Laugardalsvöllinn skemmtilegan leik. Stelpurnar geta svo sannarlega verið stoltar af árangri sínum í bikarkeppninni, þær spiluðu af mikilli festu og leikgleðin skein úr öllum þeirra verkum á vellinum. Hjartað var svo sannarlega á sínum stað og þær yfirspiluðu ríkjandi Íslands- og bikarmeistara á löngum köflum í leiknum.
Öll umgjörð leiksins var Selfoss til mikils sóma þar sem hver einn og einasti aðili sinnti sínu hlutverki af kostgæfni og nákvæmni. Klefinn fyrir leik, upphitun þjálfara, hvatning og ráðgjöf á hliðarlínunni, varamenn á bekknum, stuðningsmenn í stúkunni allt frá kornabörnum í barnavögnum og iðkendum á öllum aldri upp í framkvæmdastjóra, stjórnarmenn, heiðursfélaga og formann knattspyrnudeildar. Allir skiluðu sínu hlutverki óaðfinnanlega.
Á undanförnum árum hafa orðið stórstígar framfarir hjá stelpunum í meistaraflokki og við erum ennþá að feta okkur upp á við. Leikurinn á laugardag var, þrátt fyrir gríðarleg vonbrigði, skref í rétta átt. Skref í átt að markmiði liðsins að vinna bikar eins og Gunnar Rafn Borgþórsson sagði í viðtali við Sunnlenska.is eftir leikinn. "Þetta er kvennaknattspyrnunni á Suðurlandi til mikils framdráttar og ég er mjög stoltur af þessu.“
Leikmenn, þjálfarar, starfsmenn, stjórn og stuðningsmenn, við erum gríðarlega stolt af árangrinum og höldum áfram á sömu braut. Bikarinn er á leiðinni yfir brúna.
Fjallað var um leikinn á flestum vefmiðlum og hér á eftir má finna hlekki á umfjöllun og myndasyrpur.
Umfjöllun á vef Sunnlenska.is
Myndaveisla á vef Sunnlenska.is
Umfjöllun á vef Fótbolta.net
Umfjöllun, viðtöl, myndir og myndbönd af mörkunum á vefnum Vísir.is
Ítarleg samantekt á vef Mbl.is
Myndasafn KSÍ
---
Mynd með frétt. Byrjunarlið Selfoss í leiknum var skipuðu í aftari röð frá vinstri: Guðmunda Brynja Óladóttir fyrirliði, Eva Lind Elíasdóttir, Bríet Mörk Ómarsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Heiðdís Sigurjónsdóttir og María Rós Arngrímsdóttir. Í fremri röð frá vinstri: Donna Kay Henry, Anna María Friðgeirsdóttir, Chanté Sandiford, Thelma Björk Einarsdóttir og Erna Guðjónsdóttir.
Myndir fyrir neðan.
Fyrirliðinn Guðmunda Brynja leiddi lið sitt inn á völlinn með hjálp leikmanna framtíðarinnar úr 6. flokki.
Fagmennskan leynir sér ekki hjá liðsstjórninni.
Stuðningsmenn Selfoss fjölmenntu í stúkuna.
Ljósmyndir úr myndasafni KSÍ.