Stórgóður árangur 3. flokks á Granollers Cup

Granollers Cup 2014 (1)
Granollers Cup 2014 (1)

Strákarnir í 3. flokki í handbolta (fæddir 1996 og 1997) tók þátt í  sterku alþjóðlegu móti, Granollers cup, rétt utan við Barcelona á Spáni 25.-29. júní sl. Mótið er haldið ár hvert og rúmlega 200 lið taka þátt. Selfoss hafnaði  í 4. sæti, en 30 lið tóku þátt í þeirra flokki.

Spilað var í fimm, 6 liða riðlum og voru strákarnir í riðli með fjórum spænskum liðum og einu frá Noregi. Strákarnir unnu riðilinn, sigruðu 4 leiki og gerðu eitt jafntefli. Þá tóku við 16 liða úrslit gegn spænsku liði sem okkar menn sigruðu með 6 marka mun. Í átta liða úrslitum mættu þeir geysisterku '96  liði Savehof frá Svíþjóð. Selfossstrákarnir unnu 16-14 í mögnuðum framlengdum leik. Í undaúrslitum mættu þeir eina landsliðinu á mótinu en það var landslið Suður-Kóreu. Sá leikur var jafn lengi framan af en í restina sigu Kóreumenn fram úr og sigruðu 18-13. 50 mínútum seinna var svo leikur um bronsið gegn liði frá Granoller sem var dramatískur svo ekki sé meira sagt og endaði með sigri heimamanna. Þess má geta að Suður Kórea sigraði úrslitaleikinn um gullið nokkuð örugglega.

Strákarnir stóðu sig mjög vel og voru félagi sínu til mikils sóma, upplifðu margt nýtt utan vallar sem innan og fengu að kynnast andstæðingum sem spila allt öðruvísi handbolta en þeir eiga að venjast hér heima. Svona ferðir eru því gott innlegg í reynslubankann fræga. Vert er að geta þess að þetta er fimmta alþjóðlega mótið á undanförnum árum sem þessi hópur tekur þátt í og hafa þeir alltaf spilað til úrslita um verðlaun; hlotið eitt gull, tvö silfur, eitt brons og nú fjórða sæti.

Að lokum vilja strákarnir koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem studdu þá til fararinnar því án slíks stuðnings hefði þessi ferð ekki verið möguleg.

jb

---

Myndir: Örn Þrastarson

Fleiri myndir má finna á Fésbókarsíðu Ungmennafélags Selfoss.

Granollers Cup 2014 (2)